Róbert Luu sigraði á fyrsta móti Bikarsyrpunnar!Fyrsta mótinu af sex í Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur lauk í dag en þá fóru fram lokaumferðirnar tvær.

bikarsyrpa_15-16 (11)

Sigurvegari mótsins, hinn ungi og efnilegi Róbert Luu

Stigahæstu keppendurnir þeir Aron Þór Mai (1502) og Róbert Luu (1490) tóku snemma forystu og mættust svo báðir með fullt hús í fjórðu umferðinni sem fram fór í morgun.  Þeirri skák lauk með jafntefli og því ljóst að úrslitin myndu ráðast í lokaumferðinni sem fram fór seinnipartinn.

Bikarsyrpan_mot1_2015-2016_r5-11

Guðmundur Agnar Bragason

Róbert tefldi þá við hina efnilegu Freyju Birkisdóttir (1308) meðan Aron Þór beið það erfiða verkefni að þurfa helst sigur gegn Guðmundi Agnari Bragasyni (1368) með svörtu mönnunum.  Róbert vann sína skák örugglega, meðan Aron og Guðmundur tefldu lengstu skák umferðarinnar.  Aron vann þar peð í miðtaflinu en Guðmundur varðist fimlega og náði að læsa stöðunni í endatafli.  Í staðinn fyrir að sættast á skiptan hlut brá Aron Þór á það ráð að þyrla upp ryki og fórna biskup til að koma kóngi sínum inn fyrir varnir Guðmundar.  Hugmyndin var góð, en Guðmundur var vandanum vaxinn, fann réttu leikina og sigraði að lokum.  Þessi sigur fleytti honum upp í annað sætið á stigum en jafn honum í mark með fjóra vinninga kom Jón Þór Lemery sem sigraði Björn Magnússon í vel tefldri skák.

Jafnir í fjórða til fimmta sæti komu svo bræðurnir Aron Þór og Alexander Oliver með þrjá og hálfan vinning hvor.

Af stúlkunum stóð Freyja sig best en hún hlaut þrjá vinninga og tapaði einungis skák sinni gegn sigurvegara mótsins.

Margir af þeim krökkum sem nú tóku þátt í Bikarsyrpunni eru þrátt fyrir ungan aldur orðin sjóuð í að tefla með “Bikarsyrpu tímamörkunum” sem eru lengri en gengur og gerist í mörgum barna og unglingamótum.  Það er sífellt sjaldnar sem ólöglegir leikir eða slæmir fingurbrjótar sökum þess að krakkarnir séu að flýta sér sjáist.

Bikarsyrpan_mot1_2015-2016_r5-2

Adam að tafli við Stefán Geir sem virðist ekki sannfærður. Kristján Dagur fylgist með meðan Mikael Maron íhugar sinn næsta leik. Á pallinum má sjá glitta í Aron Þór, Róbert og Freyju.

Nokkrir ungir keppendur sem áttu það til að vera með fullkvika putta í fyrra voru í þessu móti hinir rólegustu, notuðu tímann vel og uppskáru samkvæmt því.  Þar má t.d. nefna Adam Omarsson, Arnar Milutin Heiðarsson og Kristján Dag Jónsson sem allir hlutu þrjá vinninga og voru að tefla skínandi vel og af yfirvegun.

Bikarsyrpan_mot1_2015-2016_r5-12-2

Frá vinstri Guðmundur Agnar (2), Róbert (1), og Jón Þór (3).

Alls tóku 28 keppendur þátt í fyrsta móti Bikarsyrpunnar sem verður að teljast ágætt í byrjun tímabilsins. 20 keppendur komu úr TR, fjórir úr Hugin, þrír frá Fjölni og einn frá Breiðablik.  Næsta mót í syrpunni fer fram eftir mánuð og hefst sjötta nóvember.

Taflfélag Reykjavíkur óskar sigurvegurum mótsins til hamingju og þakkar öllum þeim sem tóku þátt. Vonumst til að sjá sem flest ykkar á næstu viðburðum félagsins!

Úrslit og lokastöðuna má finna hér