Laugardagsæfingin 17. jan – Siðferði í skákÞað voru 29 krakkar sem komu niður í skákhöllina í Faxafeni til að tefla á laugardagsæfingunni 17. janúar.  Enn eru að bætast nokkrir nýjir krakkar í hópinn og harði kjarninn frá því haust heldur áfram að mæta! Stemningin var góð eins og ætla mátti og frábært hvað krakkarnir eru einbeitt við taflmennskuna.

 

Skák er hvoru tveggja í senn einfaldur og flókinn leikur! Ekki er hægt að læra allar reglur og öll atriði skákarinnar á einu bretti. En á laugardagsæfingunum æfum við mikilvæg atriði í almennri “skákhegðun” svo og bætum stöðugt við kunnáttu og færni á skákborðinu.

 

Almenn “skákhegðun” (ef þetta orð er þá til…) er í rauninni sú hegðun sem viðgengst á skákmótum um víða veröld: Skákmenn heilsast með handabandi fyrir skákina og þegar skákin er búin taka þeir í höndina á hvorum öðrum (þakka fyrir sig). Þetta er gert hvort sem maður hefur tapað, unnið eða skákin hefur farið jafntefli. Þegar skákmót er í gangi er einnig krafa að fólk gangi hljóðlega um og tali mjög lágt svo enginn verði fyrir truflun. Að sjálfsögðu er svo almenn kurteisi að raða upp taflmönnunum eftir sig þegar skákin er búin.

 

Í sambandi við almennar reglur og atriði sem við æfum einnig á laugardagsæfingum er t.d. að tefla með skákklukkum, sem þarf aðeins að venjast, en er gott fyrir krakkana að kunna, ef þau vilja síðan taka þátt í hinum ýmsu mótum sem í boði eru á vetri hverjum. Einnig má nefna regluna að “hugsa fyrst og leika svo”, þ.e. að koma ekki við marga taflmenn áður en maður loksins leikur einum leik. Heldur ber að hugsa fyrst og leika síðan fyrsta taflmanninum sem maður snertir.

 

Þess vegna þurfum við líka að æfa okkur í reglunni “snertur maður, hreyfður”! Það þýðir að ef að maður kemur við einn “kall” t.d. riddara en ákveður síðan að betra sé að forða drottningunni í burtu úr hættu og leikur henni, getur andstæðingurinn krafist þess að maður leiki riddaranum, því maður snerti hann fyrst. Ef andstæðingurinn segir “snertur maður, hreyfður” þá ber manni að leika þeim manni sem maður snerti fyrst. Að sjálfsögðu verða báðir aðilar að vera heiðarlegir í þessu tilliti!

 

Síðast enn ekki síst bætist við færnina og kunnáttuna við það eitt að tefla við hvort annað! Krakkarnir “sjóast” í taflmennskunni, læra af mistökum og læra hvort af öðru. Færni í að sjá t.d. riddaragaffla eða að geta mátað með drottningu og kóng á móti kóngi þjálfast við beina taflmennsku. En skákþjálfarinn okkar, Sævar Bjarnason, hefur einnig verið að taka upp ýmis atriði í þessa veru uppi á skákskýringartöflunni í byrjun skákæfinganna, til að beina sjónum krakkanna sérstaklega að “kunnáttuatriðum” eða “lögmálum” í skákinni, svo sem andspæni í endatafli o.fl.

 

Þetta eru nú svona upplýsingar til fullorðna fólksins! (Krakkarnir vita allt um þetta!). Og þá er ekkert að vanbúnaði að koma enn meiri upplýsingum til ykkar allra, þar sem við höfum fengið fyrirspurn um hvort skákæfingar séu líka fyrir fullorðna. Það er nefnilega svo að mömmur, pabbar, afar og ömmur geta einnig komið upp í Taflfélag Reykjavíkur til að tefla! Reyndar eru laugardagsæfingarnar ekki opnar fyrir þau, en það eru fimmtudagsmót í gangi allan veturinn. Á heimasíðu okkar má finna upplýsingar um mótin. Krakkar mega líka koma á fimmtudagsmótin svo framarlega sem að útivistarreglur séu í heiðri hafðar! Mótin eru kl. 19.30 til ca. 22.00.

 

En nú aftur að laugardagsæfingunni síðustu. Tefldar voru að þessu sinni 5 umferðir eftir Monradkerfi með 7 mín. umhugsunartíma.

Úrslit urðu eftirfarandi:

1. Elmar Oliver Finnsson 4 1/2 v.

2.-5. Tjörvi Týr Gíslason, Jakob Alexander Petersen, Erik Daníel Jóhannesson, Þorsteinn Freygarðsson 4 v.

6.-7. Guðmundur Óli Ólafarson, Gauti Páll Jónsson 3 1/2 v.

 

Þau sem tóku einnig þátt og fá mætingarstig eru: Elvar P. Kjartansson, Hörður Sindri Guðmundsson, Mías Ólafarson, Kristján Arnfinnsson, Smári Arnarson, Sigurður Alex Pétursson, Kristján Gabríel Þórhallsson, Halldóra Freygarðsdóttir, Einar Björgvin Sighvatsson, Sólrún Elín Freygarðsdóttir, Gunnar Helgason, Mariam Dalia Ómarsdóttir, Samar-e-Zahida, Páll Ísak Ægisson, Ólafur Örn Olafsson, Tinna Chloe Kjartansdóttir, Kristján Nói Benjamínsson, Dagný Dögg Helgadóttir, María Zahida, Ásdís Ægisdóttir, Sveinn Orri Helgason.

Auk þess kom Máni Elvar Traustason á sína fyrstu laugardagsæfingu og fær hann einnig mætingarstig, þó svo hann tæki ekki þátt í mótinu.

 

Eins og áður hefur verið sagt frá, fá krakkarnir stig fyrir ástundun og árangur á laugardagsæfingunum.

Stigin standa núna eftir 2 laugardagsæfingar (talið frá áramótum):

1.-2. Elmar Oliver Finnsson, Jakob Alexander Petersen. 4 stig

3.-5. Tjörvi Týr Gíslason, Erik Daníel Jóhannesson, Þorsteinn Freygarðsson. 3 stig

6.-16. Guðmundur Óli Ólafarson, Gauti Páll Jónsson, Hörður Sindri Guðmundsson, Smári Arnarson, Halldóra Freygarðsdóttir, Einar Björgvin Sighvatsson, Sólrún Elín Freygarðsdóttir, Gunnar Helgason, Samar-e-Zahida, Páll Ísak Ægisson, María Zahida. 2 stig

17.- 31. Figgi Truong, Jón Eðvarð Viðarsson, Elvar P. Kjartansson, Mías Ólafarson, Kristján Arnfinnsson, Sigurður Alex Pétursson, Kristján Gabríel Þórhallsson, Mariam Dalía Ómarsdóttir, Ólafur Örn Olafsson, Tinna Chloe Kjartansdóttir, Kristján Nói Benjamínsson, Dagný Dögg Helgadóttir, Ásdís Ægisdóttirk, Sveinn Orri Helgason, Máni Elvar Traustason. 1 stig

 

Umsjónarmaður var Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir

Verið velkomin næsta laugardag kl. 14-16. Húsið opnar kl. 13.45!