Jón Viktor Skákmeistari Reykjavíkur 2016



IMG_7794 (1)

Jón Viktor Gunnarsson sjöfaldur Reykjavíkurmeistari.

Í sjöunda sinn tryggði alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2455) sér titilinn Skákmeistari Reykjavíkur þegar staðið var upp frá borðum að lokinni níundu og síðustu umferð Skákþings Reykjavíkur sem fram fór í dag.  Í lokaumferðinni sigraði Jón Viktor kollega sinn Björn Þorfinnsson (2418) en fyrir umferðina voru þeir efstir ásamt stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni (2471) og alþjóðlega meistaranum Guðmundi Kjartanssyni (2456).  Sigur Stefáns á Guðmundi í dag tryggði honum annað sætið með 7,5 vinning, jafnmarga vinninga og Jón Viktor sem hreppir fyrsta sætið eftir stigaútreikning.  Fide-meistarinn Guðmundur Gíslason (2307) varð þriðji með 7 vinninga en hann lagði kollega sinn Dag Ragnarsson (2219).

IMG_7792

Stefán Kristjánsson kom jafn Jóni Viktori í mark.

Feykilega jöfnu og spennandi Skákþingi er nú  lokið og er Jón Viktor sannarlega vel að sigrinum kominn en hann var í forystu frá fyrstu mínútu.  Þetta er þriðja árið í röð sem hann hampar titilinum og jafnar hann nú met stórmeistarans Þrastar Þórhallssonar sem einnig hefur orðið Reykjavíkurmeistari sjö sinnum.  Svo skemmtilega vill til að nákvæmlega 50 ár eru síðan skákmaður vann titilinn þrjú ár í röð en það var Jón Kristinsson (2240) sem var einmitt á meðal þátttakenda á Skákþinginu í ár og hlaut 5,5 vinning.

IMG_7885

Spennandi lokaumferð Skákþingsins

Af nægu er að taka að loknu fjörugu móti.  Næstir efstu mönnum komu Dagur, Björn og Björgvin Víglundsson (2203) allir með 6,5 vinning en Björgvin heldur áfram góðu gengi eftir að hann tók nýverið fram taflmennina úr hillunni góðu og tapaði ekki skák.  Dagur átti líka góðu gengi að fagna, tekur inn góða stigahækkun og sýnir svo ekki verður um villst að hann á heima með þeim bestu.  Að þessu sinni var aðeins einn Dagur á meðal þátttakenda svo erfitt er að tala um ákveðinn Dagamun.

IMG_7851

Hjörtur Kristjánsson hækkaði mest allra á stigum.

Á meðal þeirra sem hlutu 6 vinninga var hinn alræmdi IM-bani Vignir Vatnar Stefánsson (2071) sem klífur nú stigalistann eins og bandbráluð klifurmús eftir nokkuð rólega tíma að undanförnu.  Sigrar hans tveir á alþjóðlegum meisturum í mótinu munu sjálfsagt seint gleymast en Vignir Vatnar þakkaði fyrir sig í dag með jafntefli við Örn Leó Jóhannsson (2157) og stigahækkun upp á lítil 86 Elo-stig.  Hinn röggsami keppnismaður og talsmaður Kókómjólkurinnar, Gauti Páll Jónsson (1921), blés sömuleiðis í herlúðra og sýndi það og sannaði að gríðarlega öruggur sigur hans í C-flokki Haustmótsins var allt annað en tilviljun.  Líkt og Vignir hlaut Gauti 6 vinninga og slaufaði móti með góðum sigri á hinum margreynda Jóhanni H. Ragnarssyni (2008) og fær fyrir vikið í skóinn 75 Elo-stig sem valda því að 2000-stigamúrinn er farinn að hrynja jafnt og þétt.  Auk þess hlýtur Gauti Páll stigaverðlaun keppenda með minna en 2000 Elo-stig en þau verðlaun getur hann aldrei unnið aftur og því er tímasetningin hjá kauða afar góð.

IMG_7871

Björgvin Víglundsson hefur átt öfluga endurkomu að skákborðinu.

Fjölmargir af skákmönnum ungu kynslóðarinnar stóðu sig afar vel og má þar nefna Hjört Kristjánsson (1352) sem hlaut 4,5 vinning og hækkar um 140 Elo-stig, mest allra í mótinu.  Hjörtur kemur úr Skákdeild Breiðabliks eins og svo margir efnilegir skákmenn í dag en liðsfélagi hans, Stephan Briem (1360), stóð sig einnig vel og hlaut 4 vinninga og hækkun upp á tæplega 70 stig.  Þá var árangur Mykhaylo Kravchuk (1504) ekki síðri en hann hlaut sömuleiðis 4 vinninga og fékk fyrir það ríflega 90 stig að launum.  Allir eru þessir efnilegu piltar fæddir árið 2003 en áberandi er hversu sterkur sá árgangur er.  Liðsfélagi Mykhaylo hjá TR, Róbert Luu (1502), lét engan velkjast í vafa um að þar fer einn efnilegasti skákmaður þjóðarinnar.  Róbert var á meðal þeirra sem hlutu 4 vinninga og komu 70 stig í hús á þeim bænum.  Að lokum má nefna Aron Þór Mai (1714) sem hefur sannarlega verið að springa út undanfarin misseri en hann nældi í 5 vinninga og fyrir þann árangur verða honum send 70 kvikindi frá Elo-stigasmiðjunni.

IMG_7873

Hálf öld er síðan Jón Kristinsson varð Reykjavíkurmeistari þrjú ár í röð.

Eins og alltaf er erfitt að hafa mál tæmandi að loknu svo stóru og glæslilegu móti.  Eitt er þó víst að fyrirkomulag Skákþingsins hefur sannað sig enn og aftur.  Án slíkra opinna móta væri mun erfiðara fyrir unga skákmenn á uppleið að bæta sig og ná sér í mikilvæga reynslu gegn sér sterkari skákmönnum.  Fyrirkomulagið býður aukinheldur upp á ákveðna spennu því óvænt úrslit setja ávallt svip sinn á slík mót en þau auka líka á skemmtanagildið, þó að það sé minna skemmtilegt fyrir þann stigaháa sem verður fyrir því að tapa gegn hinum minni spámanni.  Margir sterkir skákmenn kjósa almennt að taka ekki þátt í opnum mótum og liggja þar ýmsar ástæður að baki en þrátt fyrir það eru margir öflugir skákmenn ávallt tilbúnir að leggja stigin sín að veði sem er dýrmætt fyrir hinn almenna skákmann og þá sérstaklega fyrir hina fyrrnefndu yngri kynslóð.

IMG_7890

Barátta á skákborðinu.

Taflfélag Reykjavíkur óskar Jóni Viktori og öðrum verðlaunahöfum til hamingju og þakkar öllum fyrir þátttökuna.  Hér að neðan er farið yfir röð efstu keppenda ásamt verðlaunahöfum.  Sjáumst að ári!

1.-2. sæti Jón Viktor Gunnarsson 7,5v (52,5 stig) – Skákmeistari Reykjavíkur 2016

1.-2. sæti Stefán Kristjánsson 7,5v (50,5 stig)

3. sæti Guðmundur Gíslason 7v

4.-6. sæti Dagur Ragnarsson, Björn Þorfinnsson, Björgvin Víglundsson 6,5v

Stigaverðlaun

U2000 Gauti Páll Jónsson 6v, U1800 Aron Þór Mai 5v, U1600 Jóhann Arnar Finnsson 4,5v, U1400 Hjörtur Kristjánsson 4,5v, U1200 Sindri Snær Kristófersson 3,5v, án stiga Tryggvi K. Þrastarson 3v.

Mestu stigahækkanir

Hjörtur Kristjánsson (140), Mykhaylo Kravchuk (92), Vignir Vatnar Stefánsson (86), Gauti Páll Jónsson (75), Róbert Luu (71), Aron Þór Mai (70), Jóhann Arnar Finnsson (66), Stephan Briem (66).

Mestu stigalækkanir

Látum þær liggja á milli hluta – stigin koma aftur :o)

Heildarúrslit