Jón Viktor með örugga forystu á Tölvuteksmótinu



Þegar tvær umferðir eru eftir af Haustmóti T.R. hefur alþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, 1,5 vinnings forskot á næsta keppanda.  Jón sigraði Kjartan Maack í sjöttu umferð og gerði jafntefli við Einar Hjalta Jensson í þeirri sjöundu og hefur nú 6 vinninga.  Stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, er önnur með 4,5 vinning eftir sigra gegn Jóhanni H. Ragnarssyni og alþjóðlega meistaranum, Sævari Bjarnasyni.  Lenka hefur aðeins tapað einni skák í mótinu, gegn Jóni Viktori.  Einar Hjalti er þriðji með 4 vinninga.

 

Í áttundu umferð sem hefst á sunnudag kl. 14 mætir Jón Jóhanni, Lenka mætir Sverri Erni Björnssyni og Einar mætir Gylfa Þórhallsyni.

 

Í B-flokki heldur Dagur Ragnarsson enn forystunni eftir sigur á Grími Birni Kristinssyni í sjöttu umferð og jafntefli við Eirík K. Björnsson í sjöundu umferð.  Dagur hefur 5,5 vinning en félagar hans úr Rimaskóla koma næstir í öðru og þriðja sæti; Jón Trausti Harðarson með 4,5 vinning og Oliver Aron Jóhannesson með 4 vinninga.

 

Spennan í flokknum er mikil því Dagur situr hjá í áttundu umferð og því getur Jón Trausti náð honum vinni hann Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur.  Á sama tíma teflir Oliver við Sveinbjörn Jónsson.

 

Mikil spenna er í opna flokknum þar sem Hilmir Freyr Heimisson leiðir með 5,5 vinning eftir sigur á Sóleyju Lind Pálsdóttur í sjöundu umferð.  Gauti Páll Jónsson og Dawid Kolka eru jafnir í 2.-3. sæti með 5 vinninga.  Dawid og Hilmir mætast í áttundu umferð og þá mætir Gauti Páll Bjarnsteini Þórssyni sem getur með sigri blandað sér í toppbaráttuna.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Upplýsingar
  • Skákmeistarar T.R.
  • Skákir: 1. umf  2. umf  3. umf  4. umf  5. umf