Íslandsmeistarinn skýrir frá leyndardómum velgengni sinnarSkákmeistarinn geðþekki, Guðmundur Kjartansson, sem á dögunum varð Íslandsmeistari í skák eftir æsispennandi lokasprett og frábærlega vel teflda úrslitaskák, hyggst veita skákáhugamönnum innsýn í hugarheim sinn miðvikudagskvöldið 24.maí kl.20-22 í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur.

Guðmundur ætlar að skýra úrslitaskák Íslandsmótsins fyrir gestum, en þar stýrði hann hvítu mönnunum gegn stórmeistaranum Héðni Steingrímssyni og þurfti Guðmundur nauðsynlega sigur til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Gárungarnir hafa haft á orði að þessi skák kunni að vera ein sú besta sem Guðmundur hefur teflt á ferlinum. Íslandsmeistarinn lætur ekki þar við sitja heldur mun hann jafnframt sitja fyrir svörum og gefst skákáhugamönnum því gullið tækifæri til þess að forvitnast um leyndardómana á bakvið árangur Guðmundar í mótinu.

Guðmundur Kjartansson er sem kunnugt er alþjóðlegur meistari og hefur undanfarin misseri lagt hart að sér til þess að verða stórmeistari. Hann hefur þegar náð öllum þremur stórmeistaraáföngunum en vantar aðeins að ná 2500 stiga markinu til að verða útnefndur stórmeistari. Guðmundur ætlar að hamra járnið á meðan það er heitt og hyggst tefla í útlöndum næstu mánuði til þess að freista þess að ná 2500 stiga markinu.

Taflfélag Reykjavíkur hvetur alla skákáhugamenn til þess að líta við og hlýða á Íslandsmeistarann skýra frá leyndardómum velgengni sinnar. Aðgangseyrir er enginn. Þeir sem á hinn bóginn vilja styrkja Guðmund fyrir framtakið og í baráttunni við stórmeistaratignina er góðfúslega bent á að hann mun taka við frjálsum framlögum.

Verið velkomin í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur miðvikudagskvöldið 24.maí kl.20.