Glæsilegur hópur TR-krakka á Íslandsmóti unglingasveita.



Laugardaginn 24. nóvember fór fram Íslandsmót unglingasveita í Garðaskóla.  Taflfélag Reykjavíkur leggur metnað í að gefa sínum krökkum tækifæri á að taka þátt og sendi að þessu sinni 3 sveitir til leiks.  Hefði félagið raunar sent 1-2 fleiri sveitir ef ekki hefðu komið til forföll á síðustu stundu.

 

Fyrir krakkana er þetta mót mikil reynsla, en hér fá þau tækifæri til að tefla við aðra krakka heldur en sækja laugardagsæfingarnar og með lengri umhugsunartíma.  Fyrir sum var þetta í fyrsta sinn sem þau tefldu fyrir hönd TR en önnur hafa margoft teflt í þessu móti og í öðrum liðakeppnum taflfélaga.  Raunar var þetta í síðasta sinn sem Donika Kolica og Rafnar Friðriksson tefla í þessu móti, en þau eru orðin 15 ára og verða því of gömul á næsta ári.  Á liðsfundi sem haldinn var í mótslok þakkaði formaðurinn þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag í gegnum árin og leysti út með gjöfum undir dynjandi lófaklappi annarra liðsmanna.

 

Þessi skemmtilega athöfn í mótslok var gott dæmi um þá samheldni og góðu stemningu sem ríkti í TR-hópnum.  Allt gekk vel og keppendur voru félaginu til sóma.  Minnast verður líka á þátt tveggja nýrra liðsstjóra, þeirra Birkis Bárðarsonar (faðir tvíburanna Björns og Birkis) sem stýrði C-liðinu og Braga Thoroddsens (faðir Guðmundar Agnars) sem stýrði B-liðinu.  Mót þetta var báðum eldskírn í liðsstjórn, en þeir stóðu sig það vel að þeir eiga á hættu að vera beðnir um að endurtaka leikinn að ári!

 

Undirritaður sá um liðsstjórn í A-liðinu og þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum þar sem allir krakkanna höfðu marga fjöruna sopið í mótataflmennsku.  Við ákváðum að hafa 5 í A-liðinu, þar af einn varamann, og krakkarnir skiptust á um að tefla.  Krakkarnir sýndu mikinn þroska með að koma sér sjálf saman um það hverjir myndu tefla í hvert sinn.

 

Úrslit mótsins urðu annars þau að A-sveit Fjölnis vann með ótrúlegum yfirburðum og hlutu 28 vinninga úr 28 skákum.  Sannarlega glæsilegur árangur hjá flottum skákkrökkum.  A-sveit TR lenti hinsvegar í 3. sæti með 20 vinninga, tveimur vinningum á eftir A-sveit Hellis.

B-sveit TR hlaut verðlaun sem besta B-liðið með 15 vinninga og C-sveit TR hlaut 11,5 vinning og varð nokkru á eftir C-sveit Hellis sem varð efst C-liða.

 

Fyrir hönd TR tefldu:

 

TR-A

1. Vignir Vatnar Stefánsson

2. Veronika Steinunn Magnúsdóttir

3. Gauti Páll Jónsson

4. Rafnar Friðriksson

vm. Donika Kolica

 

TR-B

1. Jakob Alexander Petersen

2. Gabríel Orri Duret

3. Andri Már Hannesson

4. Guðmundur Agnar Bragason

vm. Björn Hólm Birkisson

 

TR-C

1. Bárður Örn Birkisson

2. Kormákur Máni Kolbeins

3. Mateusz Jakubek

4. Sævar Halldórsson

1.vm. Máni Steinn Þorsteinsson

2.vm. Davíð Dimitry Indriðason

 

Önnur úrslit má finna á chess-results.

  • Myndir (SRF)

 

Torfi Leósson