Guðmundur Kjartansson er Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2019



20190206_204108

Guðmundur Kjartansson bætti enn einum titilinum í safnið er hann varð efstur á Hraðskákmóti Reykjavíkur. Þau úrslit urðu þó ekki ljós fyrr en í 11. og síðustu umferð því Guðmundur og Vignir Vatnar Stefánsson voru báðir á miklum spretti. Guðmundur hafði forystu fram að 6. umferð, eftir að Vignir gerði snemma jafntefli við Guðna Stefán Pétursson. Í 6. umferðinni bætti Vignir fyrir það og gott betur, með því að vinna innbyrðis viðureign þeirra félaga. Áfram unnu báðir í hverri umferð en það var svo reynsluboltinn og Vinaskákfélags-meistarinn Róbert Lagerman sem setti strik í reikning Vignis í síðustu umferðinni og gerði Guðmundi kleift að skjótast hálfum vinningi fram úr Vigni, einmitt þegar það skipti mestu máli. Guðmundur er því Hraðskákmeistari Reykjavíkur árið 2019 og er það í fyrsta sinn sem Guðmundur hreppir titilinn.

Í þriðja sæti, einum og hálfum vinningi neðar, urðu síðan jafnir áðurnefndur örlagavaldur Róbert Lagerman og Örn Leó Jóhannsson en sá síðarnefndi var hærri á stigum og því þriðja sætið hans. Í sex manna hópi þar fyrir neðan var efstan að finna stigahástökkvara mótsins Arnar Milutin Heiðarsson (1777) sem tefldi við allan toppinn eins og hann lagði sig og hækkaði um tæp 94 hraðskákstig.

Þátttakendur voru 52 sem er mesti fjöldi á þessu móti hin síðari ár. Og eins og við var að búast af skákstjórunum Ólafi Ásgrímssyni og Ríkharði Sveinssyni, gekk allt eins og í sögu og öllum 11 umferðunum lokið um tíuleytið en eftir það voru síðan veitt verðlaun fyrir mót kvöldsins, sem og Skákþing Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar um mótið má síðan sjá á Chess-Results.