EM einstaklinga: Guðmundur með fjóra af áttaGuðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Guðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2464) heldur ótrauður áfram taflmennsku á fjölmennu og sterku Evrópumóti sem fer fram þessa dagana í Minsk, Hvíta-Rússlandi. Þegar átta umferðum af ellefu er lokið hefur Guðmundur 4 vinninga. Í fimmtu umferð gerði hann gott jafntefli við rússneska stórmeistarann Boris Savchenko (2634) en í þeirri sjöttu beið hann lægri hlut fyrir ítalska stórmeistaranum Daniele Vocaturo (2604). Í sjöundu umferð leit síðan annað jafntefli ljós, nú gegn rússneska skákmanninum Vladislav Chizhikov (2282), en sigur vannst í þeirri áttundu á Azeranum Ravan Aliyev (2252).

4 vinningar eru því í húsi þegar þrjár umferðir lifa af móti. Andstæðingur níundu umferðar, sem hefst í dag fimmtudag kl. 12.30 að íslenskum tíma, er úkraínskur stórmeistari að nafni Mykhaylo Oleksiyenko (2636) en sá hefur teflt fyrir Taflfélag Reykjavíkur í Íslandsmóti skákfélaga og ætti því að vera Guðmundi að góðu kunnur. Viðureignin verður í beinni útsendingu.