WOW air mótið hefst 31. mars



Glænýtt og stórglæsilegt skákmót bætist nú við í mjög svo metnaðarfulla mótadagskrá Taflfélags Reykjavíkur því þann 31. mars næstkomandi hefst Wow air Vormót Taflfélags Reykjavíkur í skákhöll félagsins að Faxafeni 12.

 

Tefldar verða sjö umferðir eftir svissneska kerfinu og er umhugsunartíminn 90 mínútur á fyrstu 40 leikina en eftir það bætast við 15 mínútur.  30 sekúndur bætast við eftir hvern leik alla skákina.  Teflt verður einu sinni í viku á mánudagskvöldum og hefjast umferðirnar kl. 19.30  Tvær yfirsetur (bye) verða leyfðar í umferðum 1-5.

 

Mótið er fyrst og fremst hugsað fyrir sterkari skákmenn og er frábær upphitun fyrir Skákþing Íslands sem hefst fljótlega að móti loknu. Keppt verður í tveimur lokuðum flokkum. 

 

Í A – meistaraflokk hafa allir skákmenn með GM/IM/FM/WGM titil þátttökurétt, auk allra skákmanna með yfir 2200 Elo skákstig.

Í B – áskorendaflokk hafa allir skákmenn með yfir 2000 Elo skákstig þátttökurétt.

Skákmenn sem munu uppfylla stigalágmörkin á 1. mars eða 1. apríl stigalistum Fide eru gjaldgengir í mótið.

Tveimur skákmönnum á stigabilinu 2000 – 2199 verður boðið sæti í A flokki.  Þau sæti eru fyrst og fremst hugsuð fyrir unga og upprennandi skákmenn á öllum aldri í mikilli framför. 

Allt að fjórum skákmönnum sem ekki hafa tilskilin stig fyrir B flokkinn verður boðin þátttaka þar.  Þau sæti eru fyrst og fremst ætluð efnilegustu skákkrökkunum og unglingunum okkar, en allir geta sótt um.

Hægt er að sækja um þessi 6 sæti með því að senda póst á taflfelag@taflfelag.is eða hafa samband við formann félagsins Björn Jónsson í síma 8999268 eigi síðar en 21. mars.

 

Glæsileg verðlaun eru í mótinu í boði Taflfélags Reykjavíkur og vina okkar hjá Wow air.

 

A – Meistaraflokkur:

1. Flugmiði með Wow air á einn af áfangastöðum félagsins (skattar og gjöld innifalið) plús 40.000 krónur

2. 40.000 krónur

3. 20.000 krónur

 

B – Áskorendaflokkur:

1. Flugmiði með Wow air á einn af áfangastöðum félagsins (skattar og gjöld innifalið) plús 20.000 krónur

2. 20.000 krónur

3. 10.000 krónur

 

Auk þess verða veittir bikarar fyrir efsta sætið í hvorum flokki auk farandbikars fyrir sigurvegara A flokks.  Verðlaunapeningar fyrir annað og þriðja sætið í báðum flokkum.

Að lokum eiga allir keppendur möguleika á að vinna glæsilegar DGT Easy Polgar skákklukkur frá skákversluninni Bobbý en tvær slíkar verða dregnar út í happdrætti við verðlaunaafhendingu.

Tvö efstu sætin í B – flokki veita þátttökurétt í A flokki að ári. 

 

Umferðatafla:

1. umferð mánudag 31. mars kl. 19.30

2. umferð mánudag 07. apríl  kl. 19.30

3. umferð mánudag 14. apríl  kl. 19.30

Páskahlé

4. umferð mánudag 28. apríl  kl. 19.30

5. umferð mánudag 05. maí   kl. 19.30

6. umferð mánudag 12. maí   kl. 19.30

7. umferð mánudag 19. maí   kl. 19.30

 

Verðlaunaafhending mun fara fram föstudagskvöldið 23. maí, en þá mun fara fram skemmtikvöld hjá TR. 

Tekið skal fram að 25% af verðlaunafé úr Wow air mótinu verður haldið eftir ef verðlaunahafar mæta ekki á verðlaunaafhendinguna til að taka við verðlaunum sínum án gildra ástæðna.

Ef fresta þarf skákum verða þær viðureignir tefldar á miðvikudagskvöldum kl. 19.30 (samhliða skákmóti öðlinga).

 

Þátttökugjald er kr. 5000 fyrir félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur en kr. 10.000 fyrir aðra. 

Þeir skákmenn sem skrá sig fyrir 24. mars fá 50% afslátt af þátttökugjaldinu.  Frítt er fyrir titilhafa á mótið skrái þeir sig fyrir 24. mars, annars kr. 5000. 

 

Skráning fer fram á www.taflfelag.is og, þegar nær dregur, www.skak.is og lýkur á miðnætti 30. mars.

 

Hér er hægt að fylgjast með skráningu.

 

Taflfélag Reykjavíkur hvetur alla skákmenn til að taka þátt og festa mótið strax í sessi sem eitt af aðalmótum skákársins!