Fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramóti ungmenna, hinn níu ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson, tapaði í tíundu og næstsíðustu umferðinni fyrir Frakkanum, Albert Tomasi. Vignir, sem hefur átt mjög gott mót, er í 58.-82. sæti með 5 vinninga fyrir lokaumferðina sem hefst kl. 9 í fyrramálið. Þá mætir hann Slóvenanum, Peter Krzan, en sá er stigalaus og hefur enn engar skákir skráðar á sig hjá Fide.
Sama hvernig fer í lokaumferðinni getur Vignir Vatnar verið stoltur af framgöngu sinni á sínu fyrsta heimsmeistaramóti enda hefur hann teflt við mun stigahærri andstæðinga í öllum umferðum nema þeirri fyrstu. Flestar hafa skákirnar talið mjög marga leiki og hafa margar tekið fjórar til fimm klukkustundir enda er Vignir þekktur fyrir allt annað en að sætta sig við skiptan hlut og teflir hann gjarnan skákir sínar „í botn“.
Efstur með fullt hús vinninga er Víetnaminn, Anh Khoi Nguyen, og hefur hann þegar tryggt sér sigurinn í flokki tíu ára og yngri. Það verður að teljast afrek út af fyrir sig að hafa fullt hús eftir tíu umferðir í svo fjölmennum flokki sem telur marga keppendur sem eru áþekkir að stigum og í ljósi þeirrar staðreyndar að Víetnaminn var þrettándi í stigaröðinni við upphaf móts. Þá vakti athygli í dag að á fjórða borði keppti stigalaus Kínverji en ungur aldur keppendanna kann að skýra þetta að nokkru leyti, þ.e. þá vantar fleiri skákir til að raunverulegur styrkleiki þeirra komi rétt fram í Elo stigum.
- Heimasíða mótsins
- Úrslit, staða og pörun
- Beinar útsendingar
- Skák Vignis úr 1. umf
- Skákir Vignis úr 2. og 3. umf
- Skákir Vignis úr 4. og 5. umf
- Skákir Vignis úr 6. og 7. umf