Guðmundur Gíslason vann yfirburðasigur á Hraðskákmóti Reykjavíkur en Dagur Ragnarsson er Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2017Í örstuttu viðtali við fréttaritara eftir níundu og síðustu umferð Skákþings Reykjavíkur á föstudagskvöld sagði Guðmundur Gíslason aðspurður, að hann væri ekki að fara að aka vestur á firði það kvöldið, heldur ætlaði hann að vera í bænum á laugardag og vinna síðan Hraðskákmót Reykjavíkur á sunnudag. Og það gerði hann heldur betur! Guðmundur var búinn að vinna allar tíu skákir sínar og tryggja sigurinn áður en síðasta umferð hófst; vann líka þá síðustu og sigraði þannig með fullu húsi. Sá er þetta ritar, rekur ekki minni til að mótið hafi unnist með þessum hætti áður. Í öðru stuttu viðtali, eftir að mótinu lauk, sagðist hinn hógværi Guðmundur hafa haft heppnina með sér í a.m.k. tveimur skákum. Heppni í tveimur skákum telst þó varla mikið á 11 umferða hraðskákmóti með á fjórða tug þátttakenda, þar sem margir af þeim sem röðuðu sér í efri sætin á Skákþinginu sjálfu voru með. Sigurvegarinn hækkar enda um tæp 50 hraðskákstig fyrir árangurinn.

Guðmundur á þó lögheimili, eins og kunnugt er, fyrir vestan og er ekki skráður meðlimur í taflfélagi í Reykjavík og því er Dagur Ragnarsson, sem varð í öðru sæti með 8 vinninga og barðist á toppborðunum allan tímann, Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2017. Jafn honum að vinningum en lægri á stigum varð síðan Bárður Örn Birkisson. Vinningi neðar með sjö vinninga komu síðan einir fimm skákmenn.

20170205_155311

Verðlaunahafar. Bárður Örn Birkisson (3.sæti), Guðmundur Gíslason (1.sæti) og Dagur Ragnarsson (2.sæti).

Röð annarra keppenda, árangur og úrslit má sjá á Chess-results.