Vignir með jafntefli í lokaumferðinni – mjög góður árangurHeimsmeistaramóti áhugamanna – skákmanna með 2000 Elo stig og minna lauk í dag í Iasi í Rúmeníu.  Hinn tíu ára Vignir Vatnar Stefánsson lauk keppni með því að gera jafntefli við efnilega indverska stúlku og lýkur því leik í 19.-40. sæti (26. sæti eftir stigaútreikning) með 6 vinninga.  Þó svo að flestir sem fylgjast með skák hérlendis viti að Vignir Vatnar er mun sterkari en stig hans nú (1678) segja til um er árangur hans með eindæmum góður og fylgir hann þar með eftir góðu gengi að undanförnu.

 

Vignir Vatnar hækkar um 61 stig fyrir árangurinn sem samsvarar 2032 Elo stigum, fer vel yfir 1700 stiga múrinn og nálgast 1800 stigin óðfluga.  Vignir vann fimm skákir, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur, báðum með svörtu.  Þá tefldi Vignir upp fyrir sig allt mótið en andstæðingar hans voru u.þ.b. 160-300 stigum hærri en okkar maður.  Framan af móti gekk Vigni verr gegn unglingunum en lét þá svo sannarlega finna fyrir því í lokaumferðunum tveimur.

 

Það sem vekur enn eftirtekt eru „stáltaugar“ Vignis en hann lætur töp lítið á sig fá og kemur jafnan sterkur til baka í næstu umferð.  Að sögn Stefáns Más Péturssonar, föður Vignis, voru aðstæður hinar bestu og framkvæmd mótsins til fyrirmyndar.

 

Yfir 200 keppendur tóku þátt í mótinu og var Vignir númer 132 í stigaröðinni.  Efstir og jafnir með 8 vinninga voru heimamaðurinn Lehel Vrencian (1966) og Malasíubúinn Wen Eu Teh Aron (1949) en sá fyrrnefndi varð ofar á stigum.  Hvorki fleiri né færri en tólf keppendur komu næstir með 7 vinninga sem sýnir hversu jafnt mótið er.  Sigurvegarinn færist sjálfkrafa upp í 2200 Elo stig, hlýtur að launum Fide meistaratitil auk peningaverðlauna.

 

Eins og fyrr var greint frá varð Vignir Vatnar á meðal efstu manna í hraðskákmótinu sem haldið var meðfram mótinu og hlaut fyrir það peningaverðlaun.

  • Skákir Vignis
  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins