Vignir efstur á Þriðjudagsmóti



Fide-meistarinn ungi Vignir Vatnar Stefánsson sigraði á Þriðjudagsmótinu þann 17. september, með 3.5 vinning af fjórum. Vignir hefur sýnt styrk sinn á mótunum og unnið hvert mótið á fætur öðru, en nú leyfði hann aðeins jafntefli gegn Magnúsi Pálma Örnólfssyni. Annar varð Björgvin Víglundsson með þrjá vinninga og Magnús Örn hlaut 2.5 vinning. Sjö skákmenn mættu til leiks en heldur rólegt hefur verið yfir mótunum meðan Haustmótið fer fram, eins og gefur að skilja. Búast má við að það lifni aðeins við þeim á næstu vikum! Öll úrslit má nálgast á Chess-results

Næsta þriðjudagsmót verður þriðjudaginn 24. september næstkomandi.  Tefldar eru fjórar skákir og tímamörkin eru 15 mínútur á skákina að viðbættum 5 sekúndum á hvern leik. Mæti 20 skákmenn til leiks eða fleiri, er mótinu skipt fyrir miðju í tvo flokka en annars er teflt í einum flokki. Mótin eru öllum opin og reiknuð til alþjóðlegra atskákstiga. Teflt er í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og taflmennskan hefst stundvíslega klukkan 19:30. Umsjón með mótunum hafa þeir Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll Jónsson. Þátttökugjald er 500kr. en frítt er fyrir 17 ára og yngri.