Rimaskóli sigursæll á Reykjavíkurmóti grunnskóla 2024! 

Reykjavíkurmót grunnskóla 2024 fór fram dagana 3. og 4. apríl síðastliðinn. Mótið er sem fyrr samstarfsverkefni Skóla og frístundasviðs Reykjavíkur (SFS) og Taflfélags Reykjavíkur. Keppt var í þremur flokkum, 1.-3. bekk, 4.-7. bekk og 8.-10. bekk. Fyrri daginn fór fram keppni 1.-3. bekkjar og daginn eftir voru eldri flokkarnir haldnir hver af öðrum, sá seinni samhliða fimmtudagshraðskákmóti TR sem fram fór í sal Skákskólans. Það myndast alltaf góð stemming í Taflfélaginu þegar Birnukaffi er opið, og öll rými í þessum góðu salarkynum skákhreyfingarinnar eru nýtt til fullnustu. 

 

Í keppni 1.-3. bekkjar mættu 15 skólasveitir til leiks sem telst nokkuð fjölmennt. Eins og svo oft áður var það Rimaskóli sem hafði flestar sveitir með, eða fjórar talsins. Leikar fóru þannig að Melaskóli var í 3. sæti, 1.5 vinning fyrir ofan næsta lið, en skáksveitirnar tvær þar fyrir ofan voru í nokkrum sérflokki, Rimaskóli-A og Langholtsskóli-A. Fengu báðir skólarnir 23 vinninga og fór innbyrðis viðureign þeirra í mótinu 2-2. Ekki nóg með það, heldur fóru einvígin, sem farið var í til að útkljá um sigurvegara, bæði 2-2! Þá var annað mót að fara að byrja í taflfélaginu, lokaumferð Öðlingamótsins. Farið var fram á gang til að klára einvígið í þriðju tilraun en það fór líka 2-2. Þá ákváðu loks liðsstjórar að báðar sveitir ynnu titilinn að þessu sinni. Innan skamms verða báðar sveitir verðlaunaðar með gullmedalíum og bikar, og verður þá myndum bætt við pistilinn. 

 

Stúlknasveit Rimaskóla 1.-3. bekk. Mynd: Helgi Árnason

Stúlknasveit Rimaskóla 1.-3. bekk. Mynd: Helgi Árnason

 

Langholtsskóli (til vinstri) og Rimaskóli (til hægri) gerðu fjórum sinnum 2-2 jafntefli.

Langholtsskóli (til vinstri) og Rimaskóli (til hægri) gerðu fjórum sinnum 2-2 jafntefli.

 

Jafnmargar sveitir tefldu í flokki 4.-7. bekkjar, 15 stykki, og aftur var það Rimaskóli sem sendi flestar sveitir til leiks eða fjórar talsins. Aftur lenti Melaskóli í 3. sæti með 18 vinninga en um þessar mundir er mikið skákstarf í Vesturbænum, og Skákdeild KR orðið mjög öflugt í barnastarfinu. Næstir urðu Hlíðaskóli með 21 vinning og vekur það athygli að bæði 1. og 2. borðskákmaður þar á bæ eru í 4. bekk. Eiga þá þrjú ár eftir í flokknum. Framtíðin er björt í Hlíðunum! Sigurvegarar urðu Rimaskóli með 23 vinninga, misstu aðeins niður eina viðureign í jafntefli. Nokkuð öruggur sigur hjá Rimaskóla, sem voru aukinheldur með efstu stúlknasveitina í flokknum. 

 

Rimaskóli vann í flokki 4.-7. bekkjar! Mynd: Helgi Árnason.

Rimaskóli vann í flokki 4.-7. bekkjar! Mynd: Helgi Árnason.

 

Rimaskóli var líka með efstu stúlknasveitina! Mynd: Helgi Árnason.

Rimaskóli var líka með efstu stúlknasveitina! Mynd: Helgi Árnason.

 

Hliðaskóli tóku silfrið! Mynd frá skákforeldri.

Hliðaskóli tóku silfrið! Mynd frá skákforeldri.

 

Melaskóli í 3. sæti 4.-7. bekkjar

Melaskóli í 3. sæti 4.-7. bekkjar. Mynd frá skákforeldri. 

4-7b

 

Í keppni 8.-10. bekkjar tefldu sjö skáksveitir, allar við allar. Að lokum náði Landakotsskóli að verja titilinn frá því í fyrra. Það mátti þó ekki tæpara standa en skólinn þurfti þrjá vinninga í lokaumferðinni gegn sterkri sveit Breiðholtsskóla og það tókst með seiglu og kannski smá heppni. Fékk skólinn 18 vinninga, og silfursveit Breiðholtsskóla 17. Þessir skólar voru í sérflokki en í þriðja sæti varð Réttarholtsskóli með 12 vinninga og var Rimaskóli með efstu stúlknasveitina. Ólíkt Íslandsmótum er ekki gert ráð fyrir að yngri skákmenn tefli upp fyrir sig í eldri flokkum, nema þeir sleppi því þá að tefla í sínum rétta aldursflokki. Til að mynda var einn liðsmaður sigursveitar Landakotsskóla í 7. bekk og annar í 6. bekk. 

 

Réttarholtsskóli í 3. sæti. Mynd: Þorsteinn Magnússon.

Réttarholtsskóli í 3. sæti ásamt liðsstjóra. Mynd: Þorsteinn Magnússon.

 

Breiðholtsskóli í 2. sæti. Mynd: Þorsteinn Magnússon.

Breiðholtsskóli í 2. sæti ásamt liðsstjóra . Mynd: Þorsteinn Magnússon.

 

Landakotsskóli sigurvegarar í flokki 8.-10. bekkjar! Mynd: Þorsteinn Magnússon.

Landakotsskóli sigurvegarar í flokki 8.-10. bekkjar! Mynd: Þorsteinn Magnússon.

 

Taflfélag Reykjavíkur þakkar Skóla-og frístundasviði fyrir áralangt samstarf og liðsstjórum  fyrir fagmannleg vinnubrögð, sem þarf til að svona fjölmenn skákmót gangi vel fyrir sig. Einnig þökkum við foreldrum fyrir að fylgjast með “á kantinum” (bókstaflega) svo það myndist ekki óþarfa kraðak í salnum. Þorsteinn Magnússon og Alexander Oliver Mai sáu um skákstjórn og gerðu það vel. En síðast en ekki síst þökkum við krökkunum fyrir flotta framistöðu og virðingu fyrir skákíþróttinni.

1.-3. bekkur á chess-results.

4.-7. bekkur á chess-results.

8.-10. bekkur á chess-results.

  • Taflfélag Reykjavíkur