Laugardagsæfingar falla niður næstu tvo laugardaga



Barna- og unglingaæfingar T.R. falla niður næsta tvo laugardaga vegna þess mikla starfs sem nú er í gangi hjá félaginu.  Núna er í gangi Stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur og mun fimmta umferð mótsins fara fram á morgun í húsnæði félagsins.  Á sunnudaginn er síðan stór dagur fyrir félagið.  Þá verður Taflfélag Reykjavíkur 113 ára, sjöunda umferð Stórmeistaramótsins fer fram ásamt sjöundu umferð Gagnaveitumótsins – Hausmóts T.R..

Við í forystusveit félagsins viljum gjarnan sjá ykkur krakkar, ásamt foreldrum og forráðamönnum ykkar, kíkja í heimsókn og fylgjast með meisturunum að tafli um helgina.  Það verða sannkölluð veisluhöld!

Helgina 11.-13. október fer síðan fram fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga þar sem margir liðsmenn T.R. munu tefla fyrir hönd félagsins, þeirra á meðal stór hluti barnanna og unglinganna sem sækja æfingar félagsins.

Þá er vert að minna á fjölteflið miðvikudaginn 9. október en þá munu börnin í Taflfélagi Reykjavíkur spreyta sig gegn úkraínska ofurstórmeistaranum Mikhailo Oleksienko sem hefur 2608 Elo stig og er þessa stundina efstur með fullt hús vinninga í fyrrnefndu Stórmeistaramóti.

Næsta laugardagsæfing verður því laugardaginn 19. október.

Fjöltefli úkraínska ofurstórmeistarans Mikhailo Oleksienko við börnin í Taflfélagi Reykjavíkur

Miðvikudaginn 9. október kl. 16.00 mun úkraínski ofurstórmeistarinn Mikhaylo Oleksienko (2608)  tefla fjöltefli við nemendur Taflfélags Reykjavíkur í skákhöll Taflfélagsins.  Oleksienko, sem teflir á Stórmeistarmóti félagsins 1. -8. október, er félagsmaður T.R. og hefur margsinnis keppt fyrir félagið á Íslandsmóti skákfélaga.

Með þessum viðburði vill félagið gefa ungum og upprennandi skákkrökkum tækifæri á að spreyta sig á taflborðinu gegn einni af aðalstjörnum félagsins.  Áhugasamir geta skráð sig með því að senda tölvupóst á taflfelag@taflfelag.is , en einnig munum við kynna betur fjölteflið og taka við skráningum á félagsæfingum Taflfélagsins.

Takið endilega þátt í fjölteflinu og skráið ykkur á taflfelag@taflfelag.is (nafn, fæðingarár og símanúmer).