Páskaeggjafjörið er hafið hjá TRTRBanner2017_simple

Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hófst síðastliðinn sunnudag og er óhætt að segja að kátt hafi verið í skákhöllinni. Hátt í 60 börn voru samankomin til þess að iðka skáklistina í von um að næla sér í nokkra vinninga og jafnvel eitt páskaegg að auki. Eins og gefur að skilja geta ekki allir hlotið verðlaun, en allir geta notið þess að glíma við skákgyðjuna í góðra vina hópi, ef hugurinn er þannig innstilltur. Mótshaldarar eru því fegnir að hafa ekki þurft að veita verðlaun fyrir afburða kátínu, brandarasmíðar, framúrskarandi söng eða snerpu í eltingaleik. Því erfitt hefði verið að skera úr um sigurvegara í þeim flokkum. Leikreglur skákmóta eru á hinn bóginn þeim kostum gæddar að auðvelt er að skera úr um sigurvegara; fjöldi vinninga er þægilegur mælikvarði að því leyti.

9Z9A2594

Einbeiting skein úr hverju andliti á fyrsta móti Páskaeggjasyrpunnar. Ljósmynd: Kristján Benediktsson.

Í yngri flokki var mikil spenna á toppnum og margar stórskemmtilegar skákir tefldar. Líkt og gjarnan vill verða hjá yngstu iðkendunum þá skiptu skákirnar alloft um eigendur og stundum réðust úrslitin jafnvel á ólöglegum leik. Einn var sá skákmaður sem stóðst allar raunir og leysti öll verkefni sem fyrir hann voru lögð í skákunum sjö. Einar Tryggvi Petersen gerði sér lítið fyrir og vann allar sínar skákir í mótinu. Einar Tryggvi hefur verið iðinn við kolann að undanförnu og hafa skákþjálfarar TR tekið eftir stórstígum framförum hjá pilti. Í 2.sæti varð hinn reynslumikli Bjartur Þórisson með 5,5 vinning. Líkt og Einar Tryggvi þá hefur Bjartur verið sérlega duglegur að mæta á skákæfingar hjá TR undanfarin misseri. Þessir ungu og efnilegu piltar eru góður vitnisburður um að ástundun og framfarir haldast í hendur.

Fjórir upprennandi skákmeistarar röðuðu sér í þriðja sæti með 5 vinninga; Mikael Bjarki Hreiðarsson, Anna Katarina Thoroddsen, Jóhann Helgi Hreinsson og Soffía Berndsen. Í slíkum tilfellum er það tölvuforritið sem reiknar út hvaða skákmaður hafi orðið hlutskarpastur, byggt á andstæðingum hvers og eins. Mikael Bjarki hreppti 3.sætið að þessu sinni. Anna Katarina og Soffía Berndsen urðu efstar stúlkna í yngri flokki en Anna Katarina varð hærri á stigum.

received_274458886327523

Sigurvegarar yngri flokks: Bjartur, Einar Tryggvi og Mikael Bjarki.

Í eldri flokki var hörkukeppni um efstu sætin. Miklar sviptingar voru í skákum toppbaráttunnar er spennustigið náði hámarki undir lok mótsins. Í efstu sætin raðaði sér mikið keppnisfólk sem hefur sýnt stáltaugar í gegnum tíðina á mótum sem þessum. Svo fór að aðeins hálfur vinningur skildi að efstu tvö sætin. Hlutskarpastur varð Ísak Orri Karlsson með 6,5 vinning. Hann vann fyrstu fjórar skákir sínar en gerði svo jafntefli í 5.umferð gegn hinum síkáta Kristjáni Degi Jónssyni. Ísak Orri tryggði sér svo sigurinn í mótinu með því að vinna síðustu tvær skákir sínar. Í 2.sæti með 6 vinninga varð Batel Goitom Haile og vann hún alla andstæðinga sína að undanskyldum sigurvegaranum sem hún varð að játa sig sigraða gegn í 3.umferð. Í 3.-4.sæti urðu Gunnar Erik Guðmundsson og Karl Andersson Claesson, báðir með 5 vinninga. Gunnar Erik reyndist eilítið hærri á stigum og hreppti því 3.sætið. Batel varð efst stúlkna í eldri flokki, en næstar henni komu Freyja Birkisdóttir og Ásthildur Helgadóttir með 4,5 vinning.

received_274458879660857

Sigurvegarar eldri flokks: Ísak Orri, Batel og Gunnar Erik.

Að loknu móti fór fram verðlaunaafhending og að henni lokinni var dregið í happdrætti. Það var mikil eftirvænting í salnum því happdrættisvinningurinn var bústið páskaegg númer sex frá Nóa Síríus. Sá heppni að þessu sinni var Arnar Páll Halldórsson. Sá lukkunnar pamfíll mun ekki þjást af súkkulaðiskorti um Páskana.

received_274458896327522

Happdrættisvinningurinn kom í hlut Arnars Páls Halldórssonar.

Nánari upplýsingar um úrslit og lokastöðu mótsins má nálgast á chess-results: Yngri flokkurEldri flokkur.

Mót númer tvö í Páskaeggjasyrpunni verður haldið næstkomandi sunnudag og fer skráning fram í skráningarformi sem nálgast má hér fyrir neðan. Einnig er hægt að finna skráningarblaðið í gula kassanum á skak.is. Mótið á sunnudag hefst klukkan 13.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim börnum sem lögðu leið sína í Faxafenið og gerðu Páskaeggjaspyrpuna að þeirri skákveislu sem raunin varð. Sjáumst næsta sunnudag!

Skráningarform