Vetrarstarf T.R. hafið!



Vetrarstarf Taflfélags Reykjavíkur er nú hafið eftir gott sumarfrí. Að venju var það Stórmót T.R. og Árbæjarsafns sem markaði upphafið og fór það fram í blíðskaparveðri 14. ágúst sl. Því næst var það Borgarskákmótið í Ráðhúsinu á 225 ára afmælisdegi Reykjavíkurborgar 18. ágúst. Þetta mót er samstarfsverkefni T.R. og Hellis. Skákæfingarnar. Fyrsta skákæfingin fyrir börn fædd 1999 og síðar er laugardaginn 3. september kl. 14. Einnig verður sérstakur unglingaflokkur fyrir félagsmenn T.R. í vetur, en æfingatíminn verður auglýstur bráðlega. Taflfélag Reykjavíkur heldur margvísleg skákmót allan veturinn. Hér skal aðeins stilklað á stóru: Haustmótið byrjar sunnudaginn 25. september. Teflt er þrisvar í viku og gert er hlé á mótinu á meðan Íslandsmóti skákfélaga stendur. Nýjung! Eitt nýtt skákmót lítur dagsins ljós en það er Vetrarmót öðlinga. Skákmót öðlinga var sem kunnugt er haldið í 20. sinn í vor og er það hinn ötuli félagsmaður T.R. Ólafur S. Ásgrímsson, sem hefur haldið utan um það mót frá upphafi. Á verðlaunaafhendingunni lýstu nokkrir skákmenn því yfir að þeir hefðu áhuga á að tefla einu tveimur slíkum mótum yfir veturinn, þar sem taflmennska einu sinni í viku kæmi sér mjög vel fyrir marga. Stjórn T.R. tók þessari áskorun og Vetrarmót öðlinga hefst því 7. nóvember. Vonumst við eftir mikilli og góðri þátttöku allra öðlinga! Skákkeppni vinnustaða verður haldin í vetur. Fyrirkomulag og dagsetning verður auglýst síðar. Fimmtudagsmótin hefjast 8. september. Mikil og góð reynsla er komin á þessi mót þar sem tefldar eru 7 umferðir með 7. mín. umhugsunartíma. Þátttökugjald er kr. 500 (kaffi, gos, kex ofl. innifalið). Athugið að félagsgjald í Taflfélagi Reykjavíkur, sem er 4000 krónur, felur í sér þátttöku á ÖLLUM fimmtudagsmótum vetrarins (2011-2012)! Hvetjum félagsmenn til að greiða árgjaldið og tefla á yfir 30 fimmtudagsmótum allan veturinn! Nýir félagsmenn að sjálfsögðu velkomnir á sömu kjörum! Áhugasamir sendi nafn, kennitölu, heimilsfang og símanúmer á taflfelag@taflfelag.is