Sæmundur unglingameistari og Freyja stúlknameistari ReykjavíkurSigurvegararnir, Freyja og Sæmundur.

Sigurvegararnir, Freyja og Sæmundur.

Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur, sem og Stúlknameistaramót Reykjavíkur fór fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur sunnudaginn 25. febrúar í hinu besta vetrarveðri.

Þátttaka var með ágætum, en samtals tóku 49 krakkar þátt, 34 í opnum flokki og 15 í stúlknaflokki. Setti það og góðan brag á mótið að 12 norsk ungmenni tóku þátt. Mótshaldið gekk vel, keppendur sýndu fyrirmyndar framkomu og hart var barist í báðum flokkum.

20180225_154931

Stúlknameistarmót Reykjavíkur snerist fljótlega upp í kapphlaup milli Batel Goitom Haile og Freyju Birkisdóttur. Batel hafði sigur í innbyrðisviðureign þeirra leiksystra í 3. umferð og það stefndi í að henni tækist að verja titil sinn frá í fyrra þar til í næstsíðustu umferð, en þá tapaði hún fyrir Guðrúnu Fanneyju Briem. Við það náði Freyja að jafna Batel að vinningum og hafði svo sigur á stigum. Í 3. sæti lenti svo Ásthildur Helgadóttir. Hún tapaði einungis fyrir efstu tveimur en gaf engum öðrum grið.

Verðlaunahafar í stúlknaflokki. F.v.: Freyja Birkisdóttir, Batel Goitom Haile, Ásthildur Helgadóttir, Katrín María Jónsdóttir, Guðrún Fanney Briem.

Verðlaunahafar í stúlknaflokki. F.v.: Freyja Birkisdóttir, Batel Goitom Haile, Ásthildur Helgadóttir, Katrín María Jónsdóttir, Guðrún Fanney Briem.

Aldursflokkasigurvegarar í stúlknaflokki:

  • f. 2006-2007: Freyja Birkisdóttir
  • f. 2008-2009: Katrín María Jónsdóttir
  • f. 2010 og síðar: Guðrún Fanney Briem

20180225_162530_007

Keppendur skiptust um að hafa forystu í opna flokknum og fyrir lokaumferðina gátu hvorki fleiri né færri en 6 hrósað sigri. Það var hinsvegar Sæmundur Árnason sem sýndi stáltaugar í síðustu umferð og tryggði sér titilinn Unglingameistari Reykjavíkur. Sæmundur hlaut 6 vinninga og varð hálfum vinningi á undan Benedikt Briem og Óskari Víkingi Davíðssyni, sem næstir komu.

Verðlaunahafar í opnum flokki. F.v.: Óskar Víkingur Davíðsson, Sæmundur Árnason, Benedikt Briem, Einar Tryggvi Petersen, Jósef Omarsson.

Verðlaunahafar í opnum flokki. F.v.: Óskar Víkingur Davíðsson, Sæmundur Árnason, Benedikt Briem, Einar Tryggvi Petersen, Jósef Omarsson.

Aldursflokkasigurvegarar í opnum flokki:

  • f. 2002-2003: Sæmundur Árnason
  • f. 2004-2005: Óskar Víkingur Davíðsson
  • f. 2006-2007: Benedikt Briem
  • f.2008-2009: Einar Tryggvi Petersen
  • f.2010 og síðar: Josef Omarsson

Nánari úrslit eru á Chess-Results.