Vetrarmótið heldur áfram á morgun – Allt að verða vitlaustSjötta og næstsíðasta umferð Vetrarmóts öðlinga fer fram á miðvikudagskvöld en mikil spenna er hlaupin í mótið eftir úrslit fimmtu umferðar og eru nú þrír stigahæstu keppendurnir efstir og jafnir. Fyrir orrustur sjöttu umferðar hafa þeir Magnús Pálmi Örnólfsson, Sverrir Örn Björnsson og Þorvarður Fannar Ólafsson 4 vinninga en næstir með 3,5 vinning koma Magnús Magnússon, Siguringi Sigurjónsson og John Ontiveros.

Það verður ekkert léttvægt við viðureignir morgundagsins því þá mætast efstu sex innbyrðis; Sverrir hefur hvítt gegn Þorvarði, Siguringi hefur hvítt gegn Magnúsi Pálma og þá stýrir Magnús M. hvíta hernum gegn svörtum stríðsmönnum John. Klukkurnar verða ræstar stundvíslega kl. 19.30 og eru áhorfendur hvattir til að líta við í Faxafenið og fylgjast með baráttunni á lokasprettinum. Heitt á könnunni!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Öðlingameistarar
  • Mótstöflur öðlingamóta
  • Myndir