Vetrarmót öðlinga í fullum gangi – Magnús efsturVetrarmót öðlinga er nú haldið í fjórða sinn og að loknum þremur umferðum er Magnús Magnússon efstur með fullt hús vinninga en Magnús Pálmi Örnólfsson, Þorvarður Fannar Ólafsson og Sverrir Örn Björnsson koma næstir með 2,5 vinning en þess má geta að Sverrir sigraði á mótinu fyrir tveimur árum.Í þriðju umferð sem fór fram á miðvikudagskvöld hafði Magnús betur gegn Siguringa Sigurjónssyni en Þorvarður og Magnús Pálmi gerðu innbyrðis jafntefli. Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá mætast á efstu borðum Magnús M og Þorvarður, Magnús Pálmi og Sverrir sem og Kristján Halldórsson og Vignir Bjarnason.25 skákmenn taka þátt í Vetrarmótinu að þessu sinni og er Þorvarður þeirra stigahæstur með 2213 Elo-stig. Magnús Pálmi (2167) kemur næstur og þá Sverrir (2104) en þeir eru einu keppendurnir sem hafa meira en 2000 Elo-stig en þeim hefur fækkað allmikið á Vetrarmótinu frá því það var fyrst haldið árið 2011.

Flautað verður til leiks í fjórðu umferð á miðvikudag kl. 19.30 og eru áhugasamir hvattir til að mæta í Skákhöllina og fylgjast með orrustum reynsluboltanna í Vetrarmótinu. Alltaf heitt á könnunni!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Öðlingameistarar
  • Mótstöflur öðlingamóta