Á skákæfingunni í Taflfélagi Reykjavíkur í dag var keppt um tvö sæti í úrslitum Barnablitz sem fram fer í Hörpunni um næstu helgi, sem hliðarviðburður við Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið, Reykjavík Open.
25 krakkar mættu á æfinguna og tefldar voru 6 umferðir með 7. mín. umhugsunartíma og af keppendalistanum var ljóst að um mikla keppni yrði að ræða!
Það voru landssliðsdrengirnir Vignir Vatnar Stefánsson og Dawid Kolka sem tóku forustuna strax frá byrjun. Eftir þrjár umferðir var gert hlé fyrir hressinguna. Í leiðinni notaði Sigurlaug formaður TR tækifærið til að vekja athygli á frábærum árangri þriggja drengja, sem þarna voru á meðal keppenda, á skákmótum það sem af er árinu. Þetta var TR-ingurinn Mykhaylo Kravchuk sem varð þriðji á Íslandsmóti barna í janúar, Dawid Kolka úr Helli, sem varð þriðji í D-flokki á nýafstöðnu Norðurlandamóti og TR-ingurinn Vignir Vatnar Stefánsson, sem varð Íslandsmeistari barna í janúar og svo Norðurlandameistari í flokki 11 ára og yngri um síðustu helgi. Þessum þremur strákum var klappað lof í lófa og allir þátttakendurnir á skákæfingunni fengu í tilefni dagsins smá auka góðgæti í hressingunni!
Síðan hélt taflmennskan áfram. Þeir Vignir og Dawid héldu forystunni allan tímann, gerðu innbyrðis jafntefli, en unnu annars alla sína andstæðinga. Þeir fengu báðir 5,5 vinning af 6 mögulegum og unnu sér því inn sæti í úrslitum í Barnablitz í Hörpunni. Verður gaman að fylgjast með þeim þar.
Hingað til eru því eftirtaldir krakkar búnir að vinna sér inn sæti í úrslitum í Barnablitz: Vignir Vatnar Stefánsson og Björn Hólm Birkisson, báðir úr TR, Felix Steinþórsson og Dawid Kolka úr Helli og Nansý Davíðsdóttir og Þorsteinn Magnússon úr Fjölni. Aðrir geta reynt að ná sér í sæti á Hellisæfingunni á mánudaginn!
Pistill: SRF