Um truflun á skákstaðÁ meðan ég sit og bíð eftir að skákunum ljúki, datt mér í hug að nefna einn menningarlegan mun sem er á mótinu hér í Mysliborz og mótunum heima.

 

Ég þykist nefnilega alltaf sjá betur og betur hvað það er mikill klassi yfir mótunum heima.  Það þarf oft ekki að leita lengur en til hinna Norðurlandanna til að lenda í mótum sem einkennast af þrengslum og óþægindum.  Þetta þykir e.t.v. ekki tiltökumál þar, en heima á Íslandi hafa góðir skákstjórar eins og t.d. Ólafur Ásgrímsson bundið um hnútana og passa upp á smáatriðin (sem, þegar allt kemur til alls, skipta miklu máli).

 

Eitt sem ég tek eftir núna, þar sem ég sit fyrir utan skáksalinn, er það brakar í hverri einustu fjöl.  Þar fyrir utan taka sumir keppendur tal saman fyrir utan (eða inni í) skáksalinn og verður úr þessu hinn ágætasti hávaði oft.  Þetta er nákvæmlega eitt atriði sem ofangreindur Ólafur Ásgrímsson er afar passasamur upp á:  þ.e. þögnin á skákstað.

 

Maður þarf oft að skyggnast í kringum sig til að átta sig á því hvað maður hefur það gott.

 

Hitt er annað mál, að ég hef ekki heyrt nokkurn keppanda kvarta yfir hávaða hér í Mysliborz.  Heimamenn kvarta ekki – sjálfsagt eru þeir vanir þessu – en athyglisvert finnst mér að piltarnir okkar skuli ekki kvarta heldur.  Einni skýringu á þessu hefur verið slegið fram og það er að þar sem hávaðinn helst stöðugur, þá er hann ekki beint truflandi þegar menn eru búnir að venjast honum.

 

Það kann að vera rétt og ef svo er, þá er það vel, því segja má að menn séu þar með að æfast í að tefla undir ýmsum kringumstæðum og láta sér það ávallt líka vel.

 

Torfi Leósson