U-2000 mótið: Fjórir keppendur leiða



Alexander Oliver Mai hefur hér hvítt gegn Stephan Briem. Niðurstaðan jafntefli.

Alexander Oliver Mai hefur hér hvítt gegn Stephan Briem. Niðurstaðan jafntefli.

Það færist fjör í leikinn í U-2000 mótinu en fjórða umferð fór fram í húsakynnum TR í gærkveld. Að henni lokinni eru Alexander Oliver Mai (1875), Óskar Víkingur Davíðsson (1777), Haraldur Baldursson (1935) og Páll Andrason (1805) efstir og jafnir með 3,5 vinning. Alexander gerði jafntefli við Stephan Briem (1895) í viðureign sem má lýsa sem störukeppni þeirra í milli. Hvorugur tók mikla áhættu og eftir langa setu ákváðu þessir efnilegu skákmenn að mætast á miðri leið. Á öðru borði lagði Haraldur Agnar Darra Lárusson (1750) í afar tvísýnni skák þar sem sá fyrrnefndi stillti upp í kröftuga sókn á kóngsvæng. Agnar varðist þó vel og hafði Haraldur eytt miklum tíma í að finna bestu leiðirnar, svo miklum að hann átti innan við tvær mínútur eftir þegar kvöldið var rétt hálfnað. Þegar á leið kom upp mjög taktísk staða þar sem Haraldur veiddi andstæðing sinn í mátnet að lokum en segja má að lukkudísirnar hafi að einhverju leyti verið hans meginn í þetta skiptið. Á næstu borðum sigruðu Páll og Óskar sína andstæðinga, sá fyrrnefndi Jóhann Arnar Finnsson (1732) og sá síðarnefndi Ólaf Guðmarsson (1724).

Jon Olav Fivelstad hafði betur með svörtu gegn Sigurði Frey Jónatanssyni.

Jon Olav Fivelstad hafði betur með svörtu gegn Sigurði Frey Jónatanssyni.

Fimm keppendur koma næstir með 3 vinninga og því ljóst að spennandi lokakafli er framundan. Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst á slaginu 19.30. Þá mætast efstu menn innbyrðis; Páll stýrir hvítu gegn Haraldi, og þá hefur Alexander sömuleiðis hvítt gegn Óskari. Öll úrslit má finna á Chess-Results og þangað fara einnig skákir mótsins.