Guðmundur sigurvegari á Bikarsyrpu helgarinnarIMG_9188

Fjórða mótið af fimm í Bikarsyrpu TR fór fram um líðandi helgi og sá hópur rétt um 30 glæsilegra skákkrakka um að halda uppi stemningunni í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur. Líkt og tvö undangengin mót skiptist mótahaldið upp í opinn flokk og stúlknaflokk. Í opna flokknum voru keppendur 25 talsins og var ánægjulegt að sjá hluta þeirra vera að spreyta sig í fyrsta sinn í Bikarsyrpunni ásamt þeim sem reyndari voru. Stúlknaflokkurinn samanstóð af fimm efnilegum skákstelpum þar sem ein leikskólamær lét sig ekki um muna að etja kappi við eldri og reyndari stúlkur.

Ekki var nóg með að barn á leikskólaaldri tæki þátt í stúlknaflokknum heldur var jafnaldri hennar á meðal þátttakenda í opna flokknum. Þau Jósef Omarsson og Wihbet Goitom Haile, sem bæði eru á sjötta aldursári, eiga sannarlega hrós skilið fyrir að taka þátt í skákmóti á borð við Bikarsyrpuna í ljósi ungs aldurs.

IMG_9208

Hörð en drengileg barátta.

Þá að gangi mótsins. Sem fyrr segir voru keppendur 25 talsins og gaman var að sjá áframhaldandi aukningu í þátttöku óreyndari og stigalausra keppenda sem hafði fækkað nokkuð í liðnum mótum. Bikarsyrpan er nefnilega hugsuð fyrir byrjendurnar líka, þ.e. krakka sem hafa farið í gegnum fyrstu stig skákarinnar og langar að stíga næstu skref. Það er alls ekkert skilyrði að vera kominn með skákstig eða þá að vera útlærður í að skrifa niður skákirnar – Bikarsyrpan er meðal annars hugsuð til þess að hjálpa hinum ungu skákmönnum við að öðlast meiri færni í þessum efnum.

Mörg börn sem þegar eru orðin margreynd á sviði skáklistarinnar mynduðu hóp þeirra sterkari í flokknum og var Daníel Ernir Njarðarson (1365) þeirra stigahæstur en hann er nú á sínu síðasta “löggilda” ári í Bikarsyrpunni þar sem framhaldsskólinn er handan við hornið. Næstir í röðinni, og nokkuð yngri, voru Guðmundur (1267) og þá Kristján Dagur Jónsson og Árni Ólafsson, báðir með 1224 Elo-stig.

IMG_9179

Ingvar Wu Skarphéðinsson þreytti frumraun sína í Bikarsyrpunni.

Það lá því fyrir hjá þeim sem til þekkja að baráttan yrði hörð, enda varð sú raunin. Í fyrstu umferð voru flest úrslit eins og búast mátti við en þó ber að nefna jafntefli Gylfa Más Harðarsonar við Árna þar sem Gylfi stóð síst lakar þegar þeir félagar slíðruðu sverðin. Gylfi sýnir skákgyðjunni mikinn áhuga og er það einungis tímaspursmál hvenær hann birtist á Fide-listanum góða haldi hann áfram góðri ástundun.

Í annari umferð vann í öllum tilfellum sá stigahærri þann stigalægri og fjöldi spennandi viðureigna leit dagsins ljós hjá þeim keppendum sem státa ekki af alveg eins mikilli reynslu. Strax í þriðju umferð fóru sterkustu skákmennirnir að mætast þar sem m.a. Daníel Ernir hafði betur gegn Sindra Snæ Kristóferssyni (1207) og Guðmundur knésetti hina eitilhörðu Batel Goitom Haile (1205). Og já, Batel er eldri systir fyrrnefndrar Wihbet – tvær svakalegar þar á ferð.

123

Josef Omarsson og Wihbet Goitom eru bæði enn á leikskóla. Skákin spyr ekki um aldur.

Guðmundur og Daníel leiddu því með fullt hús að loknum þremur umferðum og í fjórðu umferð mættust einmitt þeir félagar. Úr varð virkilega spennandi orrusta þar sem Daníel var skiptamun yfir í endatafli en vel staðsettir og snaróðir riddarar Guðmundar tryggðu honum jafntefli að lokum. Á sama tíma rann æði á Magnús Hjaltason (1205) sem sigraði Árna og þar með var sá fyrrnefndi kominn upp að hlið Guðmundar og Daníels með 3,5 vinning.

IMG_9190

Einar Tryggvi Petersen var á meðal margra nýliða í Bikarsyrpunni.

Á þessum tímapunkti var spennan strax orðin mjög mikil og stutt í næstu keppendur. Í fimmtu umferð lagði Daníel Magnús á meðan Guðmundur hafði betur gegn Adam Omarssyni (1070) og voru þeir því aftur orðnir einir efstir, nú með 4,5 vinning hvor. Fjórir keppendur önduðu ofan í hálsmál (þó ekki bókstaflega – enda væri það furðulegt) þeirra og því ljóst að þeir máttu ekki misstíga sig.

Þá kom að sjöttu umferð sem reyndist í hæsta máta söguleg því hún bauð upp á eina lengstu baráttuna í sögu Bikarsyrpunnar. Var þar um að ræða rimmu Batel og Breiðablikspiltsins, Gunnars Eriks Guðmundssonar (1148). Þegar allt virtist stefna í sigur hinnar fyrrnefndu þar sem hvor keppanda hafði hrók og riddara en Batel tveimur peðum meira (að sjálfsögðu höfðu bæði kóng enda myndi annað ekki samrýmast alþjóðlegum skákreglum) var skyndilega komin upp jafnteflisleg staða eftir að Gunnar varðist vel og náði einu peði til baka.

IMG_9192

Einbeittir keppendur.

Að lokum höfðu bæði sitt hvorn hrókinn en Batel 4 peð gegn 3 peðum Gunnars – Batel með peð á h, g, f og e-línu, en Gunnar á h, g og f línu og kóng sinn fyrir framan peð Batel. Sem sagt þekkt jafntefli en eins og kunnugir vita er Batel grjóthörð og semur ekki jafntefli eygi hún einhverja von um sigur (svona eins og Magnus Carlsen). Það var ekki fyrr en eftir 2,5 klst setu og 93 leiki sem vopnin voru að lokum lögð niður og samið um skiptan hlut. Á sama tíma hafði Guðmundur betur gegn Tómasi Möller (1099) en Daníel Ernir átti ekki heimangengt í þessa sjöttu og næstsíðustu umferð.

Staðan fyrir lokaumferðina var því þannig að Guðmundur var einn efstur með 5,5 vinning en næstur með 4,5 vinning kom Daníel Ernir. Fimm keppendur fylgdu með 4 vinninga og því ljóst að allt gat gerst í lokaumferðinni. Í henni stýrði Guðmundur svarta liðinu gegn Árna og í tvísýnu endatafli lék Guðmundur af sér manni og gaf skákina í kjölfarið. Daníel Ernir gerði hinsvegar jafntefli við Gunnar Erik og því hélt Guðmundur efsta sætinu.

Guðmundur sigraði því með 5,5 vinning en í öðru sæti með 5 vinninga varð Árni, jafnmarga vinninga og Daníel Ernir sem hlaut 3. sætið. Magnús lauk einnig leik með 5 vinninga en aðeins sjónarmunur var á þessum þremur eftir stigaútreikning.

IMG_9222

Föngulegur hópur stúlknaflokksins ásamt lærimeistara sínum, Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur.

Í stúlknaflokknum tefldu allar við alla og þar reyndist Iðunn Helgadóttir sterkust og vann alla sína andstæðinga. Í fyrstu umferð lagði hún hina ungu Wihbet en á sama tíma hafði Elsa Kristín Arnaldardóttir betur gegn Soffíu Berndsen. Önnur umferð fól í sér spennandi orrustu á milli Elsu og Iðunnar annarsvegar og hinsvegar Karenar Ólafar Gísladóttur og Soffíu. Svo fór að Iðunn og Soffía höfðu betur og voru því komnar í forystu. Í þriðju umferð sigraði Iðunn Karen en Elsa vann rimmuna við Wihbet. Iðunn landaði svo sigrinum í fjórðu umferð gegn Soffíu en í fimmtu og síðustu umferð tryggði Elsa sér annað sætið með sigri á Karen. Lokastaðan var sú að Iðunn hlaut efsta sætið með 4 vinninga, Elsa Kristín varð önnur með 3 vinninga og næst með 2 vinninga var Soffía.

IMG_9181

Iðunn Helgadóttir var fremst á meðal jafningja í stúlknaflokknum.

Enn einu móti Bikarsyrpunnar er því lokið þar sem allir keppendur eiga það sameiginlegt að hafa verið iðnir við að stunda skákina og sækja skákæfingar. Slíkt skilar sér alltaf að lokum og erum við strax farin að hlakka til fimmta og síðasta móts syrpunnar sem fer fram helgina 17.-19. mars. Takk kærlega fyrir þátttökuna og sjáumst í mars!