Það voru 78 börn og unglingar sem tóku þátt á Stúlkna- og drengjameistaramóti Reykjavíkur sem fram fór á sunnudag og var mótinu skipt í 4 flokka.
Um morguninn var teflt í tveimur yngstu flokkunum.
Í Yngri flokki 2 (f.2017) varð Róbert Heiðar Skúlason efstur með fullt hús vinninga, 5 vinninga af 5 mögulegum. Jafnir í 2.-3. sæti urðu Mikael Már Atlason og Sævar Svan Valdimarsson með 4 vinninga og hlaut Mikael 2. sætið á stigum. Efsta stúlkan var Emilía Klara Tómasdóttir sem hlaut 3 vinninga, en hún tapaði einmitt æsispennandi skák fyrir Róberti í síðustu umferð, sem réði úrslitum í mótinu. Laufey Víðis Leósdóttir varð svo önnur stúlkna.
Í Yngri flokki 3 (f.2018 og síðar) varð Helgi Fannar Óðinsson efstur með fullt hús vinninga. Í 2. sæti varð Hrafnkell Brynjólfsson með 4 vinninga og þriðji varð Hólmsteinn Pétursson með 3 vinninga. Efst stúlkna í árganginum 2019 varð Eyja Hugadóttir með 3 vinninga og efst stúlkna í árganginum 2018 varð Katla Sóley Ragnarsdóttir með 2 og hálfan vinning. Önnur árgangaverðlaun fyrir árganginn 2019 fengu Elmar Aríus Emilsson, Jón Trausti Pálsson og Sebastian Smith.
Eftir hádegi var svo teflt í tveimur flokkum:
Í Yngri flokki 1 (f.2015-2016) voru 23 keppendur og tefldu 5 umferðir. Hér varð Miroslava Skibina efst með fullt hús vinninga, eftir að hafa sigrað Hafþór Haarde Vignisson í úrslitaskák í síðustu umferð. Í öðru sæti varð Eiður Jökulsson með 4 vinninga og í 3. sæti Dawid Berg Charzynski, einnig með 4 vinninga, en lægri á stigum. Þau þrjú efstu fengu einnig gullverðlaun fyrir bestan árangur í sínum árgangi, ásamt Kumudini Jagarlamudi, sem náði bestum árangri stúlkna fæddra árið 2015. Adam Elí Óskarsson fæddur 2018, fékk einnig sérstaka viðurkenningu fyrir sína þátttöku.
Síðan var teflt í opnum flokki þar sem teflt var um bikara og titla, en þar tóku 29 krakkar þátt og tefldu 7 umferðir. Hér urðu úrslitin ótrúlega lík sama móti og í fyrra. Emilía Embla Baldvinsdóttir Berglindardóttir átti titil að verja sem Stúlknameistari Reykjavíkur, en fór ekki vel af stað. Með harðfylgi og sigri í síðustu umferð tókst henni þó að komast upp fyrir Emilíu Sigurðardóttur, sem tapaði síðustu þremur skákunum eftir góða byrjun. Emilía Embla er því Stúlknameistari Reykjavíkur 2025.
Pétur Úlfar Ernisson átti titil að verja sem Drengjameistari Reykjavíkur og hafði einmitt slegið aldursmet í fyrra þegar hann varð yngsti Drengjameistari Reykjavíkur frá upphafi, aðeins 8 ára gamall. Í ár var mjög áhugavert að fylgjast með æsispennandi skákum efstu manna í lokaumferðunum. Í 4. umferð vann Birkir Hallmundarson Pétur Úlfar í skák, þar sem teflendur þurftu að beita miklu hugarflugi til að þræða sig í gegnum flækjurnar. Birkir vann svo næstu tvær skákir líka og var einn efstur fyrir lokaumferðina með fullt hús, en vinningi á eftir honum komu Haukur Víðis Leósson og Pétur Úlfar og hafði Pétur unnið Theódór Eiríksson í 6. umferð af ótrúlegu harðfylgi: eftir að hafa verið kominn með tapað út úr byrjuninni tókst honum að komast út í jafnt endatafl sem virtist ekki bjóða upp á mikla sigurmöguleika, en einhvern veginn tókst honum það samt. Theódór vann svo Birki í síðustu umferð og þá var ljóst að Pétur Úlfar og Haukur Víðis, 9 og 10 ára gamlir, væru að tefla úrslitaskák um Reykjavíkurmeistaratitil 16 ára og yngri! Pétur Úlfar hafði sigur í þeirri viðureign, sem dugði honum til að deila sigrinum í mótinu með Birki og, þar sem Birkir er hvorki Reykvíkingur né í taflfélagi í Reykjavík, þá varð Pétur Úlfar Drengjameistari Reykjavíkur 2025. Birkir hafði hinsvegar sigurinn í mótinu á stigum, rétt eins og í fyrra og Haukur Víðis varð í 3. sæti.
Aldursflokkasigurvegarar í opnum flokki:
f.2010:
Theódór Eiríksson
Vignir Óli Gunnlaugsson
Jóel Helmer Tobiasson
Kristófer Árni Egilsson
f.2011:
Nökkvi Hólm Brynjarsson
Tristan Nash Alguno Opena
f.2012:
Örvar Hólm Brynjarsson
Emilia Embla Baldvinsdóttir Berglindardóttir
f.2013:
Birkir Hallmundarson
Likhithasri Sathiyaraj
f.2014:
Haukur Víðis Leósson
Katrín Ósk Tómasdóttir
f.2015:
Pétur Úlfar Ernisson
Jakob Steinn Valdimarsson
f.2016:
Dagur Sverrisson
Heildarúrslit á chess-results: