Wow air vormót TR hafið!Wow air vormót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gærkvöldi í skákhöllinni Faxafeni.  Margir sterkir meistarar taka þátt í A flokki mótsins þ.á.m. stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson og Fide meistararnir Dagur Ragnarsson, Einar Hjalti Jensson, Sigurður Daði Sigfússon, Ingvar Þór Jóhannesson og Davíð Kjartansson. 

Í B flokki mótsins má finna suma af okkar efnilegustu börnum og unglingum sem flest eru í hraðri framför.  Etja þau kappi við þaulreynda skákmenn á borð við Sverri Örn Björnsson, Stefán Bergsson og landsliðskonuna Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur.

Nokkur óvænt úrslit litu dagsins ljós strax í fyrstu umferð.  Þar verður að telja sigur Björgvins Víglundssonar á Einari Hjalta með svörtu óvæntust.  Björgvin varðist þar fimlega áhlaupi Einars, snéri vörn í sókn og lauk skákinni með fallegri fórn.  Virkilega gaman að sjá Björgvin að tafli en þetta er hans fyrsta kappskákmót í mjög langan tíma en greinilegt að kappinn á fullt erindi í þetta mót.

Jóhann Ingvason fékk sæti í A flokki ekki síst eftir frábæra frammistöðu á nýafstððnu Íslandsmóti skákfélaga þar sem hann hrellti margann stórmeistarann með góðri taflmennsku.  Í gær mætti hann Fide meistaranum sterka Sigurði Daða Sigfússyni og lauk þeirri rimmu með jafntefli í athyglisverðri skák.

Þá sýndi hinn ungi Oliver Aron Jóhannesson styrk sinn með því að gera jafntefli við alþjóðlega meistarann Braga Þorfinnsson þrátt fyrir að hafa lent í tímahraki. 

Önnur úrslit í A flokki verða að teljast nokkuð eftir bókinni, en þó lenti Davíð Kjartansson í kröppum dansi gegn Hrafni Loftssyni og leit út fyrir að vera með hartnær tapað tafl á tímabili í afar flókinni stöðu.  Hann náði þó vopnum sínum að lokum og vann sigur í lengstu skák kvöldsins.

Í B flokki litu einnig dagsins ljós athyglisverð úrslit.  Hinn ungi Vignir Vatnar Stefánsson lagði Stefán Bergsson afar örugglega, og annar ungur keppandi í flokknum, Bárður Örn Birkisson gerði jafntefli við landsliðskonuna Hallgerði Helgu. 

Önnur umferð fer fram næstkomandi mánudag og þá mætast meðal annarra í A flokki Björgvin og Hannes Hlífar, Davíð og Dagur meðan Bragi mætir Ingvari Þór sem tók yfirsetu í fyrstu umferðinni.

Í B flokki mætast m.a. Vignir Vatnar og Sverrir Örn á fyrsta borði meðan Birkir Karl teflir við Halldór Pálsson.

Áhorfendur eru velkomnir eins og ætíð í skákhöllina og heitt á könnunni!

Úslit og pörun í báðum flokkum má finna hér