Þrír úr T.R. tóku þátt í Skákþingi Garðab. og Hafnarf.



Sameinað Skákþing Garðabæjar og Hafnarfjarðar fór fram dagana 5. – 19. nóvember.  Þátttaka í ár var góð en tæplega 30 keppendur hófu leik.  Að venju voru tefldar sjö umferðir og sigurvegari með 6 vinninga var Siguringi Sigurjónsson (1934) en jafnir í 2.-3. sæti með 5,5 vinning voru  Tómas Björnsson (2163) og Stefán Bergsson (2083).

 

Það voru ungu skákmennirnir úr Taflfélagi Reykjavíkur sem héldu uppi merkjum félagsins með þátttöku í mótinu.  Örn Leó Jóhannsson (1730), Páll Andrason (1573) og Birkir Karl Sigurðsson (1451) mættu allir til leiks að vanda, en þeir missa helst ekki af nokkru einasta skákmóti sem fer fram á höfuðborgarsvæðinu.  Stigalega var árangur þeirra nokkuð misjafn þó allir hafi þeir endað fyrir ofan miðju.  Páll stóð sig best af þeim félögum og hafnaði í 6.-7. sæti með 4,5 vinning ásamt félaga sínum, Erni Leó.  Munurinn er þó sá að Páll hækkar um 23 elo stig en Örn lækkar um 20 stig.  Skýringin á þessu er sú að Páll náði mjög góðum úrslitum gegn sér stighærri andstæðingum en jafntefli gegn ofangreindum Siguringa, Stefáni og svo Erni Leó tryggðu honum vænan stigagróða.  Örn beið hinsvegar lægri hlut fyrir hinum mjög svo efnilega Degi Kjartanssyni (1449) og tapaði við það um 20 skákstigum.

Birkir Karl sigldi síðan lygnan sjó og sigraði stigalægri andstæðingana en beið lægri hlut fyrir þeim stigahærri.  Hann stendur því í stað stigalega séð.

 

Það er ávallt gaman að fylgjast með ungu skákmönnunum að tafli og hvernig þeir bæta sig jafnt og þétt en ef þeir stunda skákina af kappi og æfa sig vel er einugis tímaspursmál hvenær framfarastökkin koma.  Páll virðist vera í einu slíku þessi misserin og með örlítið meiri aga og þolinmæði getur hann orðið mjög sterkur en hann teflir gjarnan hvasst og ákveðið.  Örn Leó er sömuleiðis orðinn nokkuð hár á stigum enda farinn að sjást aftur í auknum mæli á mótum eftir stutt hlé.  Hann sigraði örugglega í opna flokki Haustmóts T.R. á dögunum og átti í raun lítið erindi í þann flokk.  Á Skákþingi GB og HF atti hann kappi við mun sterkari andstæðinga og náði ekki að fylgja eftir góðu gengi á Haustmótinu.  Hann á án efa eftir að koma sterkur til leiks í næsta mót en það er mikilvægt að tefla mikið við skákmenn af sambærilegum styrk eða sterkari til að bæta sig.  Birkir Karl hefur verið mjög duglegur að tefla síðustu ár og bætir sig jafnt og þétt.  Það er vonandi að hann haldi áfram og nái að verða einn af okkar betri skákmönnum.

 

Hægt er að nálgast öll úrslit með því að smella á tenglana hér að neðan.

 

  • Heimasíða TG
  • Chess-Results