Þorsteinn Magnússon sigurvegari fimmtu Bikarsyrpu TR



Fimmta Bikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur var haldin um nýafstaðna helgi og settust ríflega 20 vösk skákungmenni við skákborðin. Mótið var æsispennandi allt fram í síðustu umferð og sáust mörg óvænt úrslit.

Bikarsyrpan_2016_mot5-15

Arnar Milutin tapaði óvænt fyrir Adam Ómarssyni og lenti svo í miklum hremmingum gegn Batel Goitom. Líkt og margir er hann þó í mikilli framför og duglegur við æfingar.

Strax í 1.umferð hófst fjörið er Adam Omarsson (1068) lagði Arnar Milutin Heiðarsson (1403) að velli með svörtu. Þá stýrði Benedikt Þórisson (1000) hvítu mönnunum til sigurs gegn Svövu Þorsteinsdóttur (1291). Kristján Dagur Jónsson (1189) gerði jafntefli við Daníel Erni Njarðarson (1409) í 2.umferð og hann vann Stefán Orra Davíðsson (1251) í 3.umferð. Í 4.umferð lenti Kristján Dagur hins vegar í klóm Þorsteins Magnússonar (1306). Þorsteinn vann skákina og var því efstur fyrir síðustu umferð ásamt Sæmundi Árnasyni (1260), en Sæmundur gerði sér lítið fyrir og lagði stigahæsta mann mótsins, Jón Þór Lemery (1575), í 4.umferð. Þeir Þorsteinn og Sæmundur höfðu áður gert innbyrðis jafntefli í 3.umferð. Í lokaumferðinni tefldi Þorsteinn af miklu öryggi og vann Guðmund (0) á meðan Sæmundur tapaði fyrir Stefáni Orra.

Bikarsyrpan_2016_mot5-9

Hin kornunga Batel Goitom mætti í fyrsta sinn á Bikarsyrpuna og tefldi mjög vel.

Þorsteinn Magnússon er því sigurvegari fimmtu Bikarsyrpu TR. Hann hlaut 4,5 vinning í skákunum 5 og hækkar fyrir vikið um 18 skákstig. Í 2.sæti varð Stefán Orri Davíðsson með 4 vinninga og nældi hann sér jafnframt í 48 skákstig, sem reyndist mesta stigahækkun allra þátttakenda. Fjórir skákmenn koma í humátt á eftir með 3,5 vinning, þeir Sæmundur Árnason, Kristján Dagur Jónsson, Jón Þór Lemery og Jason Andri Gíslason. Stigaútreikningur færði Sæmundi Árnasyni bronsverðlaunin en Sæmundur hækkaði jafnframt um 26 skákstig.

Bikarsyrpan_2016_mot5-13

Kristján Dagur einbeittur á svip. Hann er sérstaklega duglegur að sækja æfingar og mót enda er hann í hraðri framför.

Kristján Dagur Jónsson hækkaði næst mest allra á þessu móti en hann nældi sér í 39 skákstig. Hann tefldi mjög vel í mótinu og tefldi skákir sínar í botn, og alltaf til sigurs. Til marks um það þá tefldi hann 106 leikja maraþonskák í síðustu umferð gegn Ólafi Erni Ólafssyni þar sem Kristján Dagur reyndi að finna leið til sigurs í jafnteflislegu riddaraendatafli. Þrautseigjan skilaði sér að lokum, eftir miklar riddaratilfærslur, er Kristján Dagur fann vinningsleið og vann skákina. Það var ekki seinna vænna því aðeins vantaði 6 leiki upp á að Ólafur Örn hefði getað krafist jafnteflis á grundvelli 50 leikja reglunnar. Kristján Dagur, sem hefur mætt manna best á skákæfingar TR undanfarin misseri, þekkti greinilega alla króka og kima þessa endatafls. Það skilar sér því augljóslega bæði í vinningum og skákstigum að mæta vel á æfingar hjá Taflfélaginu og leysa þau verkefni sem þar eru lögð fyrir nemendur.

Bikarsyrpan_2016_mot5-4

Þorsteinn Magnússon sigraði á fimmta móti Bikarsyrpunnar.

Sjötta Bikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur verður haldin dagana 27.-29.maí í húsakynnum félagsins. Þetta verður jafnframt síðasta Bikarsyrpan á þessu starfsári, en þráðurinn verður vitaskuld tekinn upp aftur næsta haust.

Úrslit