111 ára afmælishóf T.R. – Anatoly Karpov heiðursgestur



 

Taflfélag Reykjavíkur hélt í dag upp á 111 ára afmælið með afmæliskaffiboði fyrir boðsgesti í félagsheimili T.R. Klukkan 17 byrjuðu boðsgestir að streyma að og eftirvænting var í loftinu, því von var á heiðursgesti afmælisins, Anatoly Karpov, fyrrverandi heimsmeistara í skák.

 

Karpov lenti á Keflavíkurflugvelli í dag kl. 15 ásamt löndum sínum Vasily Papin stórmeistara og Michael Ivanov stórmeistara. Það var Björn Jónsson stjórnarmaður í T.R. og aðalhvatamaður og skipuleggjari heimsóknar Karpovs til Íslands sem tók á móti þeim. Björn renndi síðan í hlað í Faxafeninu rétt um kl. 17.20.

Það var stór stund þegar Anatoly Karpov gekk inn í salinn í T.R. Afmælisgestir stóðu þá upp og klöppuðu honum lof í lófa og hann var hinn hressasti og brosti út að eyrum. Þegar Karpov hafði heilsað Friðrik Ólafssyni og fleiri kunningjum hélt formaður T.R. ávarp. Sigurlaug bauð fyrrverandi heimsmeistarann velkominn sem nýjan félagsmann í T.R. Klöppuðu þá allir í salnum og Karpov stóð upp og hneigði sig og brosti. Í ávarpinu sagði Sigurlaug m.a. að heimsókn Karpovs í T.R. í dag væri sögulegt augnablik í Taflfélagi Reykjavíkur og að vera hans hér í Reykjavík væri einn af hápunktum í skáklífi landsins. Karpov var afhendur blómvöndur og eintak af bókinni Í uppnámi (íslensk skákrit útgefin árið 1901).

 

Sigurlaug minntist einnig á fyrirtækin MP banka og CCP sem styddu félagið af miklum áhuga og legðu sitt á vogarskálarnar við að gera hugmyndir stjórnarmanna T.R. að veruleika eins og sýndi sig með komu Anatoly Karpovs hér í dag.

 

Einnig voru stórmeistaranir Vasily Papin og Mikael Ivanov boðnir velkomnir svo og alþjóðlegi meistarinn Karl Þorsteins. Fengu þeir allir afhentan blómvönd.

 

Að ávarpinu loknu var boðið upp á veglegt afmælishlaðborð sem Birna Halldórsdóttir hafði útbúið af mikilli elju og snilld eins og hún er vön að gera. Gerðu afmælisgestir þessu öllu góð skil.

 

Góð og létt stemning var í afmælishófinu. Guðmundur G. Þórarinsson tók til máls og færði Karpov gjafir. Einnig tók Friðrik Ólafsson til máls og að lokum steig Anatoly Karpov í pontu og spjallaði vítt og breitt dágóða stund. Hann var yfir sig hrifinn af því að vera kominn til Íslands og færði hann Taflfélagi Reykjavíkur áritaða bók að gjöf sem gefin hafði verið út í vor í tilefni af sextugsafmæli hans. Í bókinni eru m.a. myndir sem aldrei áður hafa birst á prenti.

 

Undir lokin voru teknar margar myndir og Karpov stóð og spjallaði við afmælisgesti. Afmælishófinu lauk um kl. 19. Óhætt er að segja að afmælishófið og móttaka Karpovs hafi heppnast með eindæmum vel. Karpov var léttur og kíminn, brosmildur og skemmtilegur. Við í T.R. erum í skýjunum yfir því að hann sé kominn til landsins og látum okkur hlakka til að hafa hann hérna hjá okkur yfir helgina!

 

Dagskrá Karpovs er á heimasíðu T.R. Á morgun er einn dagskrárliður opinn almenningi: kl. 16.30 – 17.30 Karpov og Friðrik Ólafsson tefla sýningarskák með 10 -15 mínútna umhugsunartíma í húsakynnum Taflfélagsins Faxafeni 12.
Eftir skákina munu meistararnir fara yfir hana og skýra út fyrir áhorfendum.

Endilega kíkið við í T.R. á morgun!

Pistill eftir Sigurlaugu Regínu Friðþjófsdóttur