Kjartan Maack hefur sett saman góðan pistil um þátttöku félagsins í fyrri hluta Íslandsmótsins sem fór fram fyrr í vetur.
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga var haldinn helgina 10-13.október í Rimaskóla. Taflfélag Reykjavíkur sendi 5 sveitir til keppni sem að þessu sinni voru talsvert veikari en árið áður, ef undan eru skyldar unglingasveitir félagsins. Munaði þar mikið um fjarveru stórmeistaranna Friðriks Ólafssonar (2406) og Margeirs Péturssonar (2532), en auk þeirra vantaði fleiri sterka skákmenn. Keppni í efstu deild var með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur. Fjölgað var um tvö lið í deildinni, útlendingum fækkað úr fjórum í tvo og umferðum fjölgað úr 7 í 9. A- og b-sveit félagsins hófu því keppni á fimmtudegi en aðrar sveitir í neðri deildum fylgdu hefðbundnu fyrirkomulagi.
A-sveit Taflfélags Reykjavíkur skartaði úkraínska stórmeistaranum Mikhailo Oleksienko (2608) á 1.borði og skilaði hann sínu að vanda. Oleksienko fékk 3 vinninga í 4 skákum og var með frammistöðu sem samsvaraði 2682 skákstigum. Á þriðja borði tefldi Simon Bekker-Jensen (2418)) feykilega vel sem skilaði honum 4,5 vinning í fimm skákum. Það þurfti Hjörvar Stein Grétarsson (2511) til til að hafa hálfan vinning af Dananum knáa. Á neðri borðum a-sveitar tefldi hinn eitilharði Benedikt Jónasson (2256) við hvern sinn fingur og fékk að lokum 4 vinninga í fimm skákum. Sérstaka athygli vakti skák hans gegn Davíð Kjartanssyni (2336) úr Víkingaklúbbnum en í þeirri skák fórnaði Benedikt drottningu snemma tafls og innbyrti svo vinninginn nærri 30 leikjum síðar. Eftir fyrri hlutann hefur a-sveitin 24,5 vinning og siglir lygnan sjó um miðja deild.
Það var vitað að b-sveit Taflfélags Reykjavikur ætti fyrir höndum erfiða baráttu í efstu deild. Róður sveitarinnar þyngdist svo enn frekar þegar ljóst varð að nokkra frækna keppnismenn vantaði í a-sveitina. Kempur á borð við Hrafn Loftsson (2218) og Benedikt Jónasson (2256) sem hafa halað inn margan vinninginn fyrir b-sveitina í gegnum tíðina voru hífðir upp í a-sveitina. Það reyndist of stór biti fyrir b-sveitina, enda fór það svo að sveitin náði aðeins í 6,5 vinning og situr því á botni 1.deildar eftir fyrri hlutann. Ljóst er að kraftaverk þarf til ef sveitin á að bjarga sér frá falli í seinni hluta Íslandsmótsins.
C-sveit Taflfélags Reykjavíkur komst mjög vel frá helginni þökk sé Eggerti Ísólfssyni (1879) og Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur (1752). Þau tvö fóru á kostum og fengu samtals 7,5 vinning í átta skákum eða ríflega helming þeirra 12 vinninga sem c-sveitin fékk. Þau áttu því stóran þátt í því að c-sveitin fór taplaus frá helginni – einn sigur og þrjú jafntefli – og situr í sjötta sæti með 5 stig. Besta frammistaða sveitarinnar er án nokkurs vafa frábært 3-3 jafntefli gegn sterkri a-sveit KR. Í þeirri viðureign unnu bæði Eggert og Sigurlaug sínar skákir og Atli Antonsson (1870) gerði jafntefli við FIDE-meistarann Søren Bech Hansen (2315) en Atli var nálægt sigri í afar fjörlega tefldri skák.
Unglingasveitir Taflfélags Reykjavíkur stóðu sig báðar vel. A-sveitin var leidd áfram af hinum stórefnilega Vigni Vatnari Stefánssyni (1800). Hann steig vart feilspor og halaði inn 3,5 vinning í fjórum skákum. Þrátt fyrir ungan aldur er Vignir Vatnar reynslumikill og höfðu sumir kaffistofuskákmenn 4.deildar á orði að það væri allt að því ósanngjarnt að þurfa að tefla við strákinn. Ekki skal um það dæmt hér. Á 4.borði fékk Bárður Örn Birkisson (1491) 3 vinninga í fjórum skákum og hækkaði hann um 16 skákstig fyrir frammistöðuna. A-sveitin er í toppbaráttu 4.deildar með 6 stig, tveimur stigum á eftir efstu sveit. B-sveitin stóð fyrir sínu og rúmlega það því andstæðingarnir voru flestir með mun hærri meðalstig. Frábær 5-1 sigur b-sveitarinnar gegn GM Helli g-sveit stendur upp úr. Guðmundur Agnar Bragason (1352) tefldi vel á 1.borði og fékk 1,5 vinning í fjórum skákum sem skilaði honum 23 skákstigum. Á 4.borði stóð Björn Hólm Birkisson (1556) sig afar vel og fékk 2,5 vinning sem gaf stigahækkun uppá 7 skákstig.
Sé litið til vors þá verður spennandi að fylgjast með framgöngu unglingasveita TR í seinni hluta Íslandsmótsins. A-sveitin er í toppbaráttunni og miðað við framfarir hinna ungu liðsmanna síðustu mánuði þá má reikna með því að sveitin verði enn sterkari í seinni hlutanum. Undirritaður spáir því jafnframt að b-sveit ungliðanna muni hala inn fleiri vinninga í seinni hlutanum en í þeim fyrri. Að unglingasveitum undanskyldum þá er c-sveit TR sú líklegasta til að blanda sér í toppbaráttu sinnar deildar. A-sveit TR á litla möguleika á sigri í efstu deild, til þess er hún of langt frá forystusauðunum. B-sveitin er aftur á móti í bullandi fallbaráttu í 1.deild og það verður að teljast harla ólíklegt að sveitin nái að forðast fall. Það er þó rétt að bíða til vors og leyfa liðsmönnum b-sveitarinnar að leika nokkra leiki áður en sveitin er felld niður í 2.deild.
- Chess-Results
Með TR-kveðju,
Kjartan Maack