Taflfélag Reykjavíkur stóð í ströngu er seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga var haldinn. Félagið átti tvær sveitir í efstu deild, eina í 3.deild og þrjár sveitir í 4.deild. Fyrir seinni hluta mótsins átti engin sveit félagsins raunhæfa möguleika á að vinna sína deild, og aðeins ein sveit var í fallhættu. Sveitirnar voru ívið sterkari en þær sem tefldu í fyrri hluta mótsins í byrjun vetrar.
A-sveit TR sat í 4.sæti við upphaf seinni hlutans. Margeir Pétursson sem var fjarri góðu gamni í fyrri hlutanum tefldi með félaginu að þessu sinni. Það styrkti sveitina mikið enda hóf sveitin helgina af krafti. 6-2 sigur gegn Skákfélagi Akureyrar og 5-3 sigur á efstu sveit mótsins, Fjölni, var sannarlega glæsileg byrjun. Í 8.umferð fékk sveitin hins vegar skell gegn Skákfélaginu Hugin, 5,5-2,5 og þar með var ljóst að TR myndi ekki lyfta sér ofar í töflunni. A-sveitin lauk keppni með 7-1 sigri á KR og varð 4.sætið því hlutskipti TR að þessu sinni. Alls urðu vinningarnir 45. Úkraínski landsliðsþjálfarinn, Oleksander Sulypa, hlaut flesta vinninga TR-inga í mótinu, alls 6,5 í níu skákum. Margeir Pétursson tefldi af miklu öryggi og fékk 2,5 vinning í sínum þremur skákum. Þá fór Ingvar Þór Jóhannesson taplaus í gegnum mótið með 4 vinninga í sex skákum. Mesta athygli vakti frammistaða Bárðar Arnar Birkissonar því hann tefldi fimm skákir fyrir A-sveitina og vann þær allar! Sannarlega eftirtektarverð framganga þessa efnilega pilts sem tefldi af slíkum styrk að FM-titillinn virðist vera í seilingarfjarlægð.
B-sveit TR var í bullandi fallbaráttu fyrir seinni hlutann ásamt B-sveit Skákfélagsins Hugins. B-sveit TR tefldi fram reynsluboltum á efstu borðum og stórskotaliði ungliðahreyfingar félagsins á neðri borðum. Svo skemmtilega vill til að sveitin hefur innan raða sinna liðsmenn fædda hvern einasta áratug frá þeim fjórða á síðustu öld og fram til fyrsta áratugs þessarar aldar. Það var sannarlega ekki öfundsvert hlutverk sem þeir Þorvarður Fannar Ólafsson, Hrafn Loftsson, Árni Ármann Árnason og Björgvin Víglundsson fengu úthlutað þessa helgi; að tefla á efstu borðum í efstu deild. Slíkt verkefni er sérstaklega snúið að því leyti að andstæðingarnir á efstu borðum eru yfirleitt í hörku taflæfingu og margir þeirra stigaháir titilhafar. Þeir félagarnir létu þó engan bilbug á sér og gáfu þeir meisturum efstu borða ekki þumlung eftir. Hrafn Loftsson sem lítið hefur sést við taflborðin að undanförnu sýndi gamalkunna takta og fékk 1,5 vinning í tveimur skákum. Stórskotalið ungliðahreyfingar TR fór á kostum og er þá vægt til orða tekið. Stigahækkanir þeirra segja alla söguna. Björn Hólm Birkisson hækkaði um 42 stig í mótinu, Alexander Oliver Mai hækkaði um 40 stig og Aron Þór Mai hækkaði um 39 stig. Þá tefldi Bárður Örn Birkisson fjórar skákir fyrir B-sveitina og nældi sér í 43 stiga hækkun. Gauti Páll Jónsson var einnig beittur og var hann sá eini sem náði jafntefli gegn stórmeistaranum Hannesi Hlífari Stefánssyni í öllu mótinu.
B-sveitin bjargaði sér fyrir horn með glæsibrag og hafði tryggt veru sína í efstu deild fyrir síðustu umferð. Er það í fyrsta sinn síðan efsta deild varð 10 liða deild sem B-sveitinni lánast að halda sæti sínu. Í síðustu umferð mótsins litu dagsins ljós eftirtektarverðustu úrslit helgarinnar er Aron Þór Mai stýrði svörtu mönnunum til öruggs jafnteflis gegn pólska stórmeistaranum Marcin Dziuba, en á þeim munar litlum 550 skákstigum. Stundum gerist það að stigalægri skákmenn ná að hanga á jafntefli gegn mun stigahærri andstæðingum. Sú var ekki raunin í þessari viðureign því Aron Þór var skiptamun yfir undir lok skákar og reyndi að pressa þann pólska en fann ekki sigurleið.
C-sveit TR hefði verið í toppbaráttu 3.deildar ef ekki væri fyrir erfiðan fyrri hluta þar sem allt gekk á afturfótunum hjá sveitinni. Sveitin var í 10.sæti af fjórtán liðum eftir fyrri hlutann með 3 stig. Í seinni hlutanum sýndi C-sveitin sitt rétta andlit og vann allar viðureignir sínar, þar af tvær með minnsta mun. Það lyfti sveitinni upp í 4.sæti aðeins einu stigi frá því að komast upp um deild. Jon Olav Fivelstad tefldi einkar vel og tryggði barátta hans og sigurvilji meðal annars sigur í tveimur mjög jöfnum viðureignum með hagstæðum úrslitum í síðustu skák. Jon Olav hlaut 5 vinninga í sex skákum. Eiríkur Björnsson fór taplaus í gegnum mótið og fékk 3,5 vinning í fimm skákum. Veronika Steinunn Magnúsdóttir nældi einnig í 3,5 vinning í fimm skákum.
D-sveit TR var skipuð blöndu af reynslumiklum skákmönnum og ungum og efnilegum skákmönnum. Sveitin var í efri hluta mótsins frá upphafi en vantaði herslumuninn til þess að blanda sér í baráttuna um að komast upp í 3.deild. Við leiðarlok hafði sveitin halað inn 9 stig og 23,5 vinning. D-sveitin lauk keppni í 4.sæti, 2 stigum frá því að tryggja sér tilverurétt í 3.deild. Ungu mennirnir Kristján Dagur Jónsson og Árni Ólafsson fengu báðir 4 vinninga í fimm skákum fyrir D-sveitina. Þorsteinn Magnússon hlaut 3,5 vinning í fimm skákum og Jón Einar Karlsson fékk 3 vinninga í fjórum skákum.
E-sveit TR var skipuð ungu og efnilegu skákfólki sem sótt hefur skákæfingar TR af miklum krafti undanfarin ár. Sveitin fékk 6 stig, alls 22,5 vinning sem skilaði henni í 8.sæti 4.deildar. Iðunn Helgadóttir fékk 4 vinninga í sex skákum og sama vinningafjölda fékk Ingvar Wu Skarphéðinsson í sjö skákum. Ásthildur Helgadóttir vann báðar sínar skákir og hið sama gerði Árni Ólafsson. Árni sem tefldi fimm skákir fyrir D-sveitina fékk því alls 6 vinninga í sjö skákum í öllu mótinu. Viðureign E-sveitar TR við D-sveit TR vakti mikla athygli. Það þykir gjarnan gott að vera á undan í stafrófinu þegar um innbyrðis viðureign er að ræða en að þessu sinni mátti vart á milli sjá hvor sveitin væri sterkari því allar sex skákirnar voru spennandi og sumar hverjar urðu mjög langar. Að lokum hafði þó D-sveitin betur með minnsta mun 3,5-2,5. Það verður að teljast líklegt að einhverjir liðsmenn E-sveitar verði í D-sveit næsta haust þegar Íslandsmótið hefst á ný.
F-sveit TR var skipuð yngsta skákfólki félagsins og stóðu þau sig öll með miklum sóma. Sveitin vann tvær viðureignir og gerði eitt jafntefli. Stigin urðu því alls 5 og vinningarnir 15,5. Katrín María Jónsdóttir var með besta vinningshlutfallið af öllum liðsmönnum en hún fékk 3 vinninga í fjórum skákum. Einar Tryggvi Petersen vann báðar sínar skákir í seinni hlutanum og fékk alls 4 vinninga í sex skákum sem er einkar glæsilegur árangur því meðalstig andstæðinga hans voru 200 stigum hærri en hans eigin stig. Það vakti töluverða athygli að yngsti keppandi Taflfélags Reykjavíkur, Jósef Omarsson, var eini keppandi mótsins sem mætti með “aðstoðarmann” í eina skák sér til halds og trausts. Var þar á ferð sjaldgæfur selur sem ekki hefur sést við Íslandsstrendur fyrr. Selurinn reyndist framúrskarandi vel því töluverður ólgusjór var á taflborðinu áður en Jósef loks knésetti andstæðing sinn laust fyrir miðnætti á föstudagskvöldinu. Það verður fróðlegt að sjá hvort selum fjölgi á skákmótum í kjölfarið en skáklagaprófessorum ber saman um að í lögum alþjóða skáksambandsins FIDE standi ekkert um að bannað sé að koma með sel á skákstað.
Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tefldu fyrir hönd félagsins sem og til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn við liðsstjórn, liðssöfnun, skákskutl á milli staða og að vera til staðar fyrir skákfólkið okkar.