Stórmót Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur fer fram sunnudaginn 12. ágúst. Mótið gefur einstakt tækifæri til að takast á við skákgyðjuna í sögulegu umhverfi á þessu fyrsta skákmóti starfsársins 2018-2019.
Teflt verður í Árbæjarsafni og hefst taflið kl.14. Tefldar verða 8 umferðir með umhugsunartímanum 4 mínútur auk 2 sekúndna viðbótartíma eftir hvern leik (4+2). Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, 15.000 kr., 10.000 kr. og 5.000 kr. Mótið verður reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga.
Þátttökugjald er greitt með því að greiða aðgangseyri inn á safnið samkvæmt gjaldskrá Árbæjarsafns. Frítt er fyrir 67 ára og eldri, öryrkja og börn 17 ára og yngri. Þátttökugjaldið er greitt við inngang safnsins.
Núverandi Árbæjarsafnsmeistari er stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson en Hjörvar Steinn hefur í tvígang orðið hlutskarpastur á mótinu. Sá sem oftast hefur staðið uppi sem sigurvegari -alls þrisvar- er alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson.
Óskað er eftir því að keppendur skrái sig í gegnum hefðbundið skráningarform. Skákstjóri verður Torfi Leósson.