Stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur hófst í dagKlukkan fimm í dag hófst sterkasta skákmót sem haldið hefur verið á Íslandi í áraraðir, lokað tíu manna alþjóðlegt stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur.  Það var formaður T.R., Björn Jónsson, sem hóf dagskrána með beittri setningarræðu en Björn á veg og vanda af mótinu og hefur sannarlega lyft grettistaki í aðdraganda þess.

 

Í ræðu sinni vék Björn meðal annars máli sínu að því hversu sárlega slík alþjóðleg mót hefur vantað í íslenskt mótahald undanfarin ár.  Hann benti á að skákmenn margir hverjir hafi réttilega bent á þessa staðreynd í gegnum tíðina en lítið hafi verið að gert og þegar hugmyndir hafi verið viðraðar á aðalfundum forystu skákhreyfingarinnar hafi undirtektir verið dræmar.

 

Í ræðu formanns kom aukreitis fram hversu kjörið tækifæri mót sem þetta er fyrir innlenda skákmenn að spreyta sig gegn fyrnasterkum erlendum skákmeisturum og ná sér þannig í dýrmæta reynslu að ógleymdum möguleikanum á að vinna sér inn áfanga að stórmeistaratitili eða alþjóðlegum meistaratitli.  Skortur á alþjóðlegum mótum innanlands gerir íslenskum skákmönnum mjög erfitt um við að næla sér í umrædda titla.

 

Formaðurinn fór yfir hið öfluga barna- og unglingastarf félagsins en uppgangur þess hefur sjaldan verið eins mikill og þessi misserin.  Yngstu iðkendur félagsins munu ekki fara á mis við komu erlendu meistaranna því á meðal hliðarviðburða meðfram aðalmótinu er fjöltefli úkraínska ofurstórmeistarans Mikhailo Oleksienko (2608)  við nemendur Taflfélags Reykjavíkur.

 

Því næst kynnti Björn keppendurna tíu til leiks áður en Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra steig í pontu og hélt stutta tölu.  Því næst var mótið formlega sett og menntamálaráðherra lék fyrsta leiknum í viðureign úkraínska ofurstórmeistarans Sergey Fedorchuk (2656) og alþjóðlega meistarans Arnars E. Gunnarssonar (2441).

 

Það má með sanni segja að Arnar, sem snýr nú aftur eftir alltof langt hlé frá kappskákmótum, hafi fengið ærið verkefni þegar hann settist anspænis úkraínska skákmeistaranum í hlutverki svörtu mannanna.  Fedorchuk hefur nefnilega áberandi gott vinningshlutfall með hvítu, svo gott að sjaldgæft er að sjá slíkt hlutfall hjá skákmönnum.  Af tæplega 530 skákum sem skráðar eru á Fedorchuk samkvæmt vef Fide hefur hann sigrað í 64% þeirra og aðeins tapað 6%.

 

Tefldur var ítalskur leikur og svo fór að Arnar játaði sig sigraðan eftir 37 leiki en Fedorchuk hafði frumkvæði alla skákina og líklega hefur Arnar teflt full rólega gegn hinum fyrnasterka Sergey.  Næststigahæsti keppandi mótsins, úkraínski ofurstórmeistarinn Mikhailo Oleksienko (2608) mátti hafa sig allan við þegar hann sigraði Fide meistarann Sigurbjörn Björnsson (2395) en Sigurbjörn hefur verið í töluverðri framför síðastliðin 2-3 ár.

 

Stórmeistarinn Henrik Danielsen (2501) vann síðan nokkuð öruggan sigur á færeyska alþjóðlega meistaranum Helga Dam Ziska (2485) og enn og aftur sýndi Henrik með sínum sérstaka skákstíl hversu sterkur hann er í skákum sem einkennast af stöðubaráttu.  Alþjóðlegu meistarinn Guðmundur Kjartansson (2447) laut í gras fyrir danska alþjóðlega meistaranum Simon Bekker-Jensen (2420) og þá gerðu Þorvarður Fannar Ólafsson (2266) og alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2483) jafntefli í mikilli baráttuskák.

 

Önnur umferð fer fram á morgun miðvikudag og hefst kl. 15 en þá mætast m.a. Bragi og Oleksienko sem og Henrik og Fedorchuk.  Teflt er í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur við bestu aðstæður.  Hægt er að fylgjast með öllum viðureignunum á stóru tjaldi og þá eru skákskýringar á skákstað en meðal skákskýrenda má nefna stórmeistarana Jón L. Árnason og Þröst Þórhallsson.  Það eru því kjöraðstæður fyrir áhorfendur en aðgangur er ókeypis.  Þá er vert að nefna sérlega glæsilegar veitingar sem í boði eru en við setningu mótsins er ekki orðum aukið að tala um hlaðborð af dýrindis tertum og meðlæti.

  • Chess-Results
  • Vefur mótsins
  • Myndir (ÁK)