SÞR#4: Stefán Bergsson og Björn Hólm Birkisson einir með fullt húsMikið gekk á í 4.umferð Skákþings Reykjavíkur sem tefld var í dag í skáksal Taflfélags Reykjavíkur. Enn og aftur urðu óvænt úrslit um allan sal og stigahæstu skákmennirnir stigu feilspor. Feilspor var þó ekki hluti af aðgerðum Stefáns Bergssonar og Björns Hólm Birkissonar í dag sem tróna einir efstir á toppnum með fullt hús.

IMG_9699

Það var fjör á pallinum í 4.umferð. Júlíus Friðjónsson komst í hann krappann gegn Hrafni Loftssyni.

Heimisson-BergssonStefán Bergsson (2093) stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Hilmi Frey Heimissyni (2136) í æsispennandi skák. Stefán bauð upp á stakt peð á d5 sem hann síðar fórnaði til guðanna. Tveimur peðum undir, með vafasama kóngsstöðu en ógnvekjandi sóknarfæri, skellti Stefán fram sleggjunni 22…Be2!! og skyndilega var ballið búið (sjá stöðumynd eftir 22.Hab1).

Björn Hólm Birkisson (2084) beitti lævísu bragði gegn Caro Kann vörn Lenku Ptáčníkovu (2218). Hugsanlega hefur minnið brugðist hinum unga skákmeistara því hefði hann fært maddömmuna frá h5 á f3 strax í 9.leik, líkt og fræðibækur kveða á um, þá hefði skákin að öllum líkindum orðið stutt. Í 18.leik missti Björn Hólm af allt að því röktum vinning með taktíska högginu 18.Hhe1. Með tékknesku töfrabragði tókst Lenku að lifa af áhlaupið og komast í endatafl sem gaf betri jafnteflismöguleika. Björn Hólm er hins vegar sprenglærður endataflssérfræðingur líkt og allir sem setið hafa á skólabekk í endataflsháskóla Torfa Leóssonar. Björn Hólm tefldi endataflið af nákvæmni og hafði að lokum sigur.

Hrafn Loftsson (2163) gefur ekkert eftir á pallinum og vann í dag Júlíus Friðjónsson (2137). Mai-bræður, Aron Þór (2066) og Alexander (1970), gerðu báðir jafntefli með hvítu, Aron gegn Braga Halldórssyni (2082) og Alexander gegn Björgvini Víglundssyni (2167). Þá vann Þorvarður Fannar Ólafsson (2178) með hvítu gegn Birki Karli Sigurðssyni (1934).

Þeir stigaháu komust flestir á beinu brautina í þessari umferð. Einar Hjalti Jensson (2336), Sigurbjörn J. Björnsson (2288), Dagur Ragnarsson (2332) og Vignir Vatnar Stefánsson (2304) unnu allir í dag og eru á hraðferð upp töfluna. Fyrrum Reykjavíkurmeistarinn Bragi Þorfinnsson (2426) hikstaði þó hressilega og varð að gera sér að góðu jafntefli gegn Jóhanni H. Ragnarssyni (1991).

IMG_9705

Bjartur Þórisson þungt hugsi í upphafi 4.umferðar.

Á neðri borðum gekk á ýmsu líkt og fyrri daginn. Rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason (1539), hélt áfram góðu gengi sínu og gerði jafntefli við körfuboltasnillinginn Óskar Víking Davíðsson (1854). Óvæntustu úrslit umferðarinnar urðu á 15.borði þar sem Stefán Orri Davíðsson (1280) stýrði svarta hernum til sigurs gegn Óskari Haraldssyni (1733) en á þeim munar 453 skákstigum. Einnig var eftirtektarverður sigur Þorsteins Magnússonar (1425) á Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur (1734). Þá gerði Óskar Long Einarsson (1785) gott jafntefli við Jóhann Ingvason (2161).

Eftir 4.umferð eru aðeins tveir skákmenn með fullt hús, þeir Stefán Bergsson og Björn Hólm Birkisson. Skákáhugamönnum er ráðlagt að spenna sætisólar á miðvikudagskvöldið því þá mætast þeir og getur aðeins annar þeirra -augljóslega- staðið upp frá þeirri viðureign með fullt hús vinninga. Það er því vel úti látinn gortréttur í húfi.

Klukkur 5.umferðar fara í gang klukkan 19:30 á miðvikudagskvöld. Sem fyrr verður heitt á könnunni og nýbakaðar vöfflur í eldhúsinu fyrir gesti. Beinar útsendingar verða sem fyrr frá níu efstu borðunum.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu ásamt innslegnum skákum má nálgast á Chess-Results.