Línur skýrðust í toppbaráttu Skákþings Reykjavíkur í gærkvöldi er 4.umferð var tefld. FM Sigurbjörn Björnsson (2296) gaf engin grið á efsta borði og situr nú einn á toppnum með fullt hús vinninga. Fjórir vaskir skákmenn fylgja honum eins og skugginn með 3,5 vinning.
Sigurbjörn tefldi hraustlega gegn stórmeistara kvenna og stigahæstu skákkonu landsins, og sá Lenka Ptacnikova (2187) sig knúna til að leggja niður vopn í 38.leik. FM Davíð Kjartansson (2403) töfraði fram fallega taktík í 12 leikja sigurskák gegn Skákmeistara Reykjavíkur, Stefáni Bergssyni (2172). Stefán bauð upp á Jaenisch gambítinn í Spænskum leik en uggði ekki að sér er hann lék Qd7 í ellefta leik. Þá kom sleggja frá FIDE-meistaranum, 12.Rxe5! og svartur gafst upp (sjá stöðumynd).
GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2560) vann þolinmæðissigur í endatafli gegn Ögmundi Kristinssyni (1988). IM Guðmundur Kjartansson (2424) varð á hinn bóginn að sætta sig við skiptan hlut gegn Jóhanni Ingvasyni (2175) eftir baráttu mislitra biskupa. Vignir Vatnar Stefánsson (2248) tefldi yfirvegað gegn Þorvarði Fannari Ólafssyni (2199) og greip tækifærið er Þorvarður teygði sig of langt í mátsókn.
Sigurbjörn er eins og fyrr segir einn efstur með fjóra vinninga. Hjörvar Steinn, Jóhann, Davíð og Vignir Vatnar eru næstir í röðinni með 3,5 vinning. 5.umferð verður tefld næskomandi sunnudag og verða klukkur settar í gang klukkan 13. Sex efstu borðin verða í beinni útsendingu og verða það eftirfarandi viðureignir:
Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðu mótsins má finna á Chess-Results. Skákir mótsins eru jafnframt aðgengilegar á Chess-Results.