SÞR#3: Þrír með fullt húsAð loknum þremur umferðum á Skákþingi Reykjavíkur eru þrír skákmenn með fullt hús. Mikil spenna var á fyrsta borði hvar Skákmeistari Reykjavíkur, Stefán Bergsson (2172), mætti stórmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni (2560) í spennandi viðureign. Skákinni lauk með þráskák í athygliverðri stöðu þar sem Stefán hafði öflugar bætur fyrir skiptamun og stóðu öll spjót að kóngi stórmeistarans. Stefán og Hjörvar Steinn hafa báðir 2,5 vinning.

Efst og jöfn með fullt hús eru FIDE-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2296), Jóhann Ingvason (2175) og stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova (2187). Sigurbjörn vann Júlíus Friðjónsson (2159) með svörtu í hörkuskák. Lenka lenti í mátstormi Björns Hólm Birkissonar (2078) sem fórnaði tveimur fákum í leit að máti. Lenka varðist vel og er storminn loks lægði þá átti Lenka léttunnið tafl. Jóhann hafði svart gegn Gauta Páli Jónssyni (2070) og þurfti Jóhann að treysta á hraustlegan svíðing sem og mistök andstæðingsins í mislitu biskupaendatafli. Birna í Birnukaffi er einnig með fullt hús líkt og alltaf; bæði af gestum og mat. Birna bauð upp á nýjung strax í upphafi umferðar er hún dró óvænt fram nýtt vöfflujárn. Gripurinn stóð undir væntingum og gladdi gesti.

Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2424), FIDE-meistarinn Davíð Kjartansson (2404) og FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2248) hafa allir 2,5 vinning en allir hafa þeir tekið eina yfirsetu. Einnig með 2,5 vinning eru Björgvin Víglundsson (2092), Þorvarður Fannar Ólafsson (2199) og Ögmundur Kristinsson (1988). Óvæntustu úrslit umferðarinnar voru án efa sigur Benedikts Þórissonar (1363) á Ólafi Gísla Jónssyni (1806). Benedikt vann þar með sína aðra skák í röð gegn mun stigahærri andstæðingi og er pilturinn til alls líklegur í mótinu.

4.umferð hefst kl.19:30 næstkomandi miðvikudagskvöld. Sex efstu borðin verða sem fyrr í beinni útsendingu og eru það eftirfarandi viðureignir:

SÞR#4

Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðu mótsins má finna á Chess-Results. Þar má einnig finna skákir mótsins.