SÞR #3: Mikið um óvænt úrslit (framhald) – en bara þrír eftir með fullt húsÞað voru bara þeir Hilmir Freyr Heimisson, Hrafn Loftsson og Bragi Halldórsson sem náðu „eðlilegum“ úrslitum af þeim sem voru stigahærri og voru að tefla á efstu níu borðunum (en frá þeim eru beinar útsendingar) í þriðju umferð sem fram fór á miðvikudagskvöld.

20180117_200918

Vönduð byrjunartaflmennska Stefáns Bergssonar á 1.borði lagði grunninn að sigri á Þorvarði F. Ólafssyni.

Á efsta borði fékk Þorvarður F. Ólafsson (2178) fremur óvirka Benoni-stöðu upp úr Enskum leik í viðureign sinni við Stefán Bergsson (2093) og við að reyna að hrista fram eitthvert mótspil varð Þorvarði fótaskortur og Stefán fékk léttunnið endatafl.

Björgvin Víglundsson (2167) brást líklega aðeins of rólega við virkri taflmennsku Björns Hólms Birkissonar (2084) í byrjun og miðtafli. Eftir flækjur í miðtafli reyndust hrókar Björns njóta sín mun betur en drottning Björgvins í endataflinu. Á þriðja borði áttust við Júlíus Friðjónsson (2137) og Aron Þór Mai (2066) en í þeirri skák var stigamunur einna minnstur af viðureignunum á efstu borðum. Og niðurstaðan jafntefli eftir að Aroni hafði tekist að treysta stöðu sem leit fremur tætingslega út eftir byrjunina.

Þeir nafnarnir Einar Hjalti Jensson (2336) og Einar Valdimarsson (2023) tefldu í botn og stigu frá borði með kóngana eina eftir. Sigurbjörn Björnsson (2288) fórnaði peði til að opna kóngsstöðuna hjá Eiríki K. Björnssyni (1934) í tímahraki beggja en færin reyndust ekki nóg og þá átti sá síðarnefndi valdað frípeð hinum megin á borðinu sem réði þá úrslitum.

Það var þó ekki bara í beinni sem óvænt úrslit litu dagsins ljós. Þannig tókst Braga Þorfinnsyni (2426) ekki að koma boltanum í mark með svörtu hjá reynsluboltanum Ögmundi Kristinssyni (2005), né Jóhanni Ingvasyni (2161) með hvítu hjá Óskari Haraldssyni (1733). Loks hafði Hjálmar Sigurvaldason (1491) sigur með hvítu gegn Óskari Long Einarssyni (1785) sem hefur annars verið á siglingu upp stigalistann að undanförnu.

20180117_200934

Hilmir Freyr Heimisson hafði betur gegn Birki Karli Sigurðssyni í hörkuspennandi skák.

Vegna óvæntra úrslita í þessari umferð og þeim sem á undan voru, sem og leyfa sem sumir af sterkari skákmönnunum hafa tekið, eru þeir sterkustu ekki allir farnir að safnast við toppinn enn (það gerist nú yfirleitt eftir því sem líður á mót…) en þátttakendum með fullt hús vinninga fækkaði um heila fimm í þessari umferð. Það eru bara þrír slíkir eftir; tveir af þeim, þeir Hilmir Freyr Heimisson og Stefán Bergsson, mætast á efsta borði í næstu umferð en sá þriðji, Björn Hólm Birkisson mætir Lenku Ptáčníkovu (sem hefur reyndar ekki misst neitt niður ennþá en á frestaða skák við Ögmund Kristinsson úr 2. umferð).

Fjórða umferðin hefst kl. 13 n.k. sunnudag (21. janúar) í Skákhöll TR í Faxafeni.

Nánar um úrslit, stöðu og pörun á Chess-Results en þar má líka nálgast snilldina, mistökin og tilþrifin í skákunum sjálfum.