Stefán og Bárður sigra á öðru móti Páskaeggjasyrpunnar



Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hélt áfram síðastliðinn sunnudag er annað mótið af þremur var haldið. Sem fyrr öttu ungir skákmenn kappi í tveimur flokkum og tefldu sex umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Yngri flokkur samanstóð af börnum fædd árið 2006 eða síðar, en í eldri flokki tefldu þeir sem eru fæddir 1999-2005.

 

Í yngri flokki fylgdi Stefán Orri Davíðsson eftir góðri frammistöðu sinni á nýafstöðnu Reykjavíkurskákmóti með því að leggja alla sex andstæðinga sína að velli. Stefán Orri stóð því uppi sem öruggur sigurvegari. Í 2.sæti varð Guðni Viðar Friðriksson með 5 vinninga, en hann tapaði einungis fyrir sigurvegaranum Stefáni Orra. Guðni Viðar varð einnig í 2.sæti í fyrsta móti Páskaeggjasyrpunnar. Um 3.sætið var hart barist því hvorki fleiri né færri en 6 skákmenn voru jafnir með 4 vinninga. Eftir stigaútreikning reyndist Adam Omarsson hlutskarpastur. Af þessum sex skákmönnum með 4 vinninga voru tvær stúlkur og því þurfti að grípa til stigaútreiknings til þess að fá úr því skorið hvor þeirra hlyti stúlknaverðlaunin. Freyja Birkisdóttir var þar sjónarmun á undan Elsu Kristínu Arnaldardóttur.

 

Í eldri flokki var spennan mikil allt fram í síðustu umferð. Þorsteinn Magnússon fór mikinn í upphafi og hafði 4,5 vinning eftir 5 umferðir. Hann lagði að velli Róbert Luu og gerði jafntefli við Björn Hólm Birkisson eftir að hafa staðið til vinnings lengi vel. Í 5.umferðinni mættust tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir í æsispennandi skák þar sem taugar keppenda sem og áhorfenda voru þandar. Endataflið reyndist afar fjörlegt og erfitt fyrir áhorfendur að spá hvor myndi hafa betur. Þá varð Bárði Erni fótaskortur sem Björn Hólm nýttir sér til þess að ná vinningsstöðu. Sá galli var á gjöf Bárðar að mikill tími fór í að finna vinningsleiðina hjá Birni Hólm. Svo fór að Björn Hólm féll á tíma við að reyna að máta stakan kóng bróður síns og niðurstaðan því spennuþrungið jafntefli. Því var ljóst að síðasta umferðin yrði æsispennandi. Þá mættust Þorsteinn og Bárður Örn á efsta borði. Þá skák vann Bárður Örn snaggaralega og tryggði hann sér þar með sigur í mótinu með 5,5 vinning. Björn Hólm vann sína skák og lauk tafli með 5 vinninga. Sama vinningafjölda náði Óskar Víkingur Davíðsson. Björn Hólm hlaut 2.sætið eftir stigaútreikning og Óskar Víkingur endaði í 3.sæti. Stúlknaverðlaunin í eldri flokki komu í hlut Kötlu Torfadóttur en hún vann fjórar skákir. Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir kom fast á hæla Kötlu með 3,5 vinning.

 

Að venju var dregin út happadrættisvinningur að móti loknu. Líkt og í fyrsta mótinu var vinningurinn glæsileg DGT skákklukka. Upp úr pottinum kom nafn Ásgeirs Braga Baldurssonar, sá hinn sami og vann happadrættisvinninginn í fyrstu Páskaeggjasyrpunni -ótrúlegt en satt! Ásgeir Bragi var hins vegar ekki á staðnum þegar kom að útdrætti og því þurfti að draga aftur. Sá sem hlaut happadrættisvinninginn að þessu sinni var hinn ungi en snjalli skákmaður Róbert Luu.

 

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum keppendum og áhorfendum fyrir skemmtilegt mót og hlakkar til að taka á móti öllum aftur næsta sunnudag er þriðja og síðasta mót Páskaeggjasyrpu Nóa Síríus og TR verður haldið. Þá verða jafnframt afhent páskaegg til þeirra sem teflt hafa í að minnsta kosti tveimur mótum Páskaeggjasyrpunnar. Hlökkum til að sjá ykkur næsta sunnudag!

  •  Heildarúrslit yngri flokkur
  •  Heildarúrslit eldri flokkur
  •  Mót #1
  •  Myndir