Sævar Öðlingameistari



Alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason er Skákmeistari öðlinga 2014 en hann tryggði sér titilinn með sigri á Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur í lokaumferð Skákmóts öðlinga sem fram fór á miðvikudagskvöld. Er þetta í fyrsta sinn sem Sævar ber þennan sæmdartitil. Mótið var afar jafnt og spennandi og þurfti tvöfaldan stigaútreikning til að kveða upp úr um sigurvegara mótsins því Ögmundur Kristinsson kom jafn Sævari í mark með 6 vinninga eftir að hafa leitt mótið lengi vel. Ögmundur hefði þurft sigur gegn Öðlingameistara síðustu tveggja ára, Þorvarði F. Ólafssyni, í lokaumferðinni en jafntefli varð niðurstaðan. John Ontiveros, Þorvarður, Ólafur Gísli Jónsson og Sigurður Kristjánsson komu næstir með 5 vinninga.

Sigurlaug átti mjög gott mót, tapaði aðeins fyrir þeim Sævari og Ögmundi, og hækkaði mesta allra á stigum eða um 32 stig. Þá bættu þeir John, Ögmundur og Gunnar Nikulásson ríflega 20 stigum hver í sarpinn. Teflt var í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 og var skákstjórn í höndum Ólafs S. Ásgrímssonar sem á ennfremur veg og vanda að Öðlingamótunum sem hafa verið haldin í á þriðja áratug.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7
  • Myndir
  • Mótstöflur
  • Öðlingameistarar
  • Öðlingamótið