Barna- og unglingameistaramót TR fer fram á sunnudag



10_Ung_Stulk_TR

Barna- og unglingameistaramót sem og Stúlknameistaramót Taflfélags Reykjavíkur fer fram sunnudaginn 5. nóvember í félagsheimili T.R. Faxafeni 12. Taflið hefst kl.13.

Tefldar verða 7 umferðir með tímamörkunum 10+5 (10 mínútur á mann auk 5 sekúndna sem bætast við eftir hvern leik). Mótið verður reiknað til atskákstiga.

Teflt verður í tveimur flokkum: opnum flokki og stúlknaflokki. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í opna flokknum og þar fyrir utan hlýtur efsti T.R.-ingurinn titilinn Unglingameistari T.R. 2017.

Þá verða veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í stúlknaflokknum og þar fyrir utan hlýtur efsta stúlkan úr T.R. titilinn Stúlknameistari T.R. 2017.

Til viðbótar verða veitt verðlaun fyrir efsta sætið í aldursflokknum 13-15 ára (f. 2002-2004), 11-12 ára (f. 2005-2006), 9-10 ára (f. 2007-2008) sem og 8 ára og yngri (f. 2009 og síðar) í báðum flokkum (opna flokknum og stúlknaflokknum).

Fyrra árs Unglingameistari TR er Vignir Vatnar Stefánsson og Stúlknameistari TR er Batel Goitom Haile.

Mótið er opið öllum krökkum 15 ára og yngri (fædd 2002 og síðar).

Skákmótið hefst kl.13 og er aðgangur ókeypis. Skráning í mótið fer fram rafrænt og má nálgast  skráningarformið hér. Einnig má finna skráningarformið í gula kassanum á skak.is. Upplýsingar um þegar skráða keppendur má nálgast hér.