Landsliðsflokkur Skákþings Íslands fer fram á Bolungarvík dagana 1.-11. september. Að þessu sinni tekur einn skákmaður úr T.R. þátt en það er hinn nýbakaði alþjóðlegi meistari, Guðmundur Kjartansson. Mjög spennandi verður að fylgjast með gengi hans en Guðmundur hefur farið hamförum við skákborðið að undanförnu. Guðmundur etur kappi við 11 aðra skákmenn í lokuðum 12 manna flokki þar sem meðalstigin eru 2383.
Ríkjandi Íslandsmeistari, Hannes Hlífar Stefánsson, tekur ekki þátt að þessu sinni en hann hefur hampað titlinum 10 sinnum á síðustu 11 árum.
Keppendur:
Nr. | Nafn | Titill | Félag | Stig |
1 | Henrik Danielsen | SM | Haukar | 2473 |
2 | Jón Viktor Gunnarsson | AM | Bol | 2462 |
3 | Stefán Kristjánsson | AM | Bol | 2462 |
4 | Þröstur Þórhallsson | SM | 2433 | |
5 | Dagur Arngrímsson | AM | Bol | 2396 |
6 | Bragi Þorfinnsson | AM | Bol | 2377 |
7 | Guðmundur Kjartansson | AM | TR | 2356 |
8 | Róbert Lagerman | FM | Hellir | 2351 |
9 | Guðmundur Gíslason | Bol | 2348 | |
10 | Davíð Ólafsson | FM | Hellir | 2327 |
11 | Ingvar Þór Jóhannesson | FM | Hellir | 2323 |
12 | Sigurbjörn Björnsson | FM | Hellir | 2287 |
Að vanda fer fram áskorendaflokkur samhliða landsliðsflokki og að þessu sinni fer hann fram í félagsheimili Hellis við Mjódd dagana 29. ágúst – 6. september . Efstu tvö sætin í áskorendaflokki gefa þátttökurétt í landsliðflokki að ári. Áskorendaflokkur er opinn öllum og eru félagsmenn T.R. hvattir til þáttöku í þessu skemmtilega móti þar sem teflt er í einum opnum flokki og því kjörið tækifæri fyrir þá stigalægri að spreyta sig gegn hinum stigahærri og veiða stig af þeim.
Þegar þetta er skrifað hafa 27 keppendur skráð sig til leiks, þeirra stigahæstur, Þorsteinn Þorsteinsson (2286). Meðal skráðra eru allnokkrir meðlimir T.R. og vonast stjórnin til að sjá sem flesta TR-inga taka þátt.
Allar nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Skáksambands Íslands en skráning fer fram á skak.is.