Skákstelpur TR í keilu



Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, skákkennari, skrifar

 

Skákstarf Taflfélags Reykjavíkur er að komast aftur á skrið eftir gott sumarfrí. Skákæfingarnar eru að komast í gang og skákmótaröðin langa sem nær fram á vor er nú þegar hrokkinn í gírinn.

Stelpuskákæfingarnar hefjast laugardaginn 8. september, eftir viku, en upptakturinn hófst í gær þegar 12 hressar skákstelpur hittust í Keiluhöllinni og skemmtu sér í keilu. Sumar komu beint af Laugardalsvellinum, eftir að hafa horft á landsleik Íslands og Þýskalands
í fótbolta. Aðrar komu beint úr TR eftir að hafa setið að tafli í Bikarsyrpunni – sannarlega komnar í skákgírinn!

Markmiðið með þessum skákstelpuhitting var að hrista hópinn saman fyrir skákveturinn og styrkja félagsleg tengsl milli stelpnanna. Sumar hverjar þekkjast mjög vel, sumar eru systur, en aðrar komar stakar úr hinum ýmsu skólum á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa þó allar hist á skákæfingum og á skákmótum.

Við sem störfum í stjórn TR höfum mikinn áhuga á að stelpum líði vel í skákinni og að þær vilji halda áfram að tefla. Því við vitum öll að stelpur tefla! Grundvöllur fyrir því er að okkar mati að þær hafi góð félagsleg tengsl í skákinni. Þessi stelpuhópur er mjög öflugur og þær sýndu svo sannarlega í dag að þær skemmtu sér vel saman. Þetta var fjörug samkoma. Við vorum með þrjár brautir og fjórar stelpur spiluðu á hverri braut. Glæsileg tilþrif með keilukúlurnar gat á að líta! Inni á milli var bitið í pizzu og pælt í stigunum og komið með skemmtilegar athugasemdir.

Að lokum var tekin hópmynd fyrir utan Keiluhöllina og allar stelpurnar fóru með bros á vör heim á leið. Við „stelpurnar“ í TR stjórninni, Una Strand Viðarsdóttir og ég, þökkum skákstelpunum og foreldrunum kærlega fyrir skemmtilega samveru í Keiluhöllinni.

Þátttakendur í keilunni voru eftirfarandi skákstelpur: Anna Katarina Thoroddsen, Batel Goitom Haile, Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, Elín Lára Jónsdóttir, Hildur Birna Hermannsdóttir, Iðunn Helgadóttir, Karen Ólöf Gísladóttir, Katrín María Jónsdóttir, Soffía Arndís Berndsen, Wihbet Goitom Haile, Þóra Magnúsdóttir og Þórdís Bragadóttir.