Sex skákmenn með fullt hús í U-2000 mótinu



Önnur umferð U-2000 mótsins fór fram í gærkveld og var hart barist frameftir kvöldi. Á efsta borði gerði Ingvar Egill Vignisson (1647) sér lítið fyrir og sigraði stigahæsta keppanda mótsins, Harald Baldursson (1984), og blandaði sér þannig í hóp þeirra sem hafa fullt hús vinninga að loknum tveimur umferðum. Af öðrum úrslitum má nefna að hin unga og efnilega Batel Goitom Haile (1582) gerði jafntefli með svörtu við Kristján Örn Elíasson (1818) og þá vann Hjálmar Sigurvaldason (1509) góðan sigur á Jóni Eggerti Hallssyni (1732), einnig með svörtu mönnunum. Hjálmar er í hópi þeirra sem hafa unnið báðar sínar viðureignir.

Hart barist í U2000 mótinu.

Baráttan í U2000 mótinu.

Þriðja umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast á efstu borðum Björgvin Jónas Hauksson (1744) og Haraldur Haraldsson (1958), sem og Jon Olav Fivelstad (1928) og Ingvar Egill.

Skákir mótsins ásamt stöðu, úrslitum og pörun má finna á Chess-Results.