Rombaldoni tókst að stöðva sigurgöngu Guðmundar



Það kom í hlut ítalska alþjóðlega meistarans, Denis Rombaldoni (2465), að leggja alþjóðlega meistarann, Guðmund Kjartansson (2356), loks af velli en Guðmundur tapaði gegn Ítalanum í fimmtu umferð Czech Open sem fram fór í dag.

Guðmundur stýrði svörtu mönnunum og tefld var Nimzo-indversk vörn.  Eins og Guðmundar er von og vísa hleypti hann skákinni fljótt upp og snemma tafls var komin upp opin og flókin staða þar sem Ítalinn fórnaði fljótlega manni fyrir opnara spil.  Guðmundi tókst því miður ekki að verjast nógu vel og þurfti að játa sig sigraðan eftir 27 leiki.

Það er þó ólíklegt að ósigurinn í dag dragi nokkuð úr Guðmundi, sem hefur verið á fljúgandi siglingu að undanförnu, og hann er enn á meðal efstu manna með fjóra vinninga.  Efstur er fyrrnefndur Rombaldoni með fullt hús vinninga en þrír skákmenn koma næstir með 4,5 vinning.

Í sjöttu umferð, sem hefst á morgun kl. 13, stýrir Guðmundur hvítu mönnunum gegn þýska alþjóðlega meistaranum, Michael Thorsten Haub (2483).  Skákin verður í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Guðmundur teflir í opnum a-flokki þar sem 295 skákmenn taka þátt en hann er númer 109 í röðinni.  Stigahæstur er Azerbaijinn, Rauf Mamedov (2645).

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni

Chess-Results

Skákir til niðurhals