Guðmundur með 50% vinningshlutfall á Evrópumótinu



Fjórum umferðum af ellefu er nú lokið á Evrópumótinu í skák sem fram fer í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Eins og áður var ritað beið alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2464) lægri hlut fyrir úkraínska stórmeistaranum Alexander Moiseenko (2677) í fyrstu umferð en sá sigraði einmitt á Evrópumótinu 2013. Í annari umferð sigraði Guðmundur síðan heimamanninn Valiantsin Yezhel (2156) og slíkt hið sama gerði hann gegn öðrum heimamanni í þriðju umferð, Oleg Deblik (1725), en sá sigraði skákmann með ríflega 2300 Elo-stig í umferðinni á undan.

Guðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Guðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Í fjórðu umferð var svo ljóst að við ramman reip yrði að draga þar sem andstæðingurinn yrði enginn annar en goðsögnin Alexander Beliavsky (2589) sem teflir nú undir merkjum Slóveníu þar sem hann hefur haft búsetu í rúm 20 ár. Meðal afreka Beliavsky má nefna heimsmeistaratitil ungmenna 1973 og fjórfaldan Sovétmeistaratitil. Þá má geta þess að Beliavsky var á meðal keppenda á síðastliðnu Reykjavíkurskákmóti. Guðmundur stýrði svörtu mönnunum gegn stórmeistaranum sem sigldi sigrinum að lokum í höfn af mikilli þrautseigju í endatafli eftir mikla stöðubaráttu og tilfærslu manna lengi vel.

Fimmta umferð fram á morgun laugardag og hefst taflmennskan kl. 12.30 að íslenskum tíma. Viðureign Guðmundar gegn rússneska stórmeistaranum Boris Savchenko (2634) verður í beinni útsendingu.