Róbert Lagerman sigurvegari á Stórmóti Árbæjarsafns og TR



Hinn síungi og stórefnilegi Róbert Lagman kom sá og sigraði á Stórmóti Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór í blíðskaparviðri sunnudaginn 31. ágúst. Mótið markar að mörgu leiti upphaf vetrarstarfsins hjá Taflfélaginu og teflt við skemmtilegar aðstæður í sögulegu umhverfi Árbæjarsafns.

Tuttugu og átta skákmenn voru mættir til leiks, full mikið brotthvarf miðað við skráningu reyndar! Titilhafarnir voru þrír og fyrirfram hefðu flestir veðjað á stórmeistarann Vigni Vatnar Stefánsson. Eftir þrjár umferðir var Vignir með fullt hús eins og við var að búast, en Róbert Lagerman, Jóhann Ingvason og Arnar Milutin fylgdu honum eins og skugginn.

Í fjórðu umferðinni sýndi Róbert að honum var alvara með því að leggja Vigni að velli í spennandi skák. Jóhann Ingvason vann líka og mætti Róbert í næstu umferð.

Jóhann og Róbert tefldu spennandi skák en Róbert var enn og aftur vandanum vaxinn og náði að kreysta fram sigur í tvísýnni skák.

Róbert hélt áfram í sjöttu umferð, lagði Gauta Pál. Vignir vann gegn Jóhanni og reyndi að vera í seilingarfjarlægð ef Róbert fataðist flugið.

Í lokaumferðinni innsiglaði Róbert sigurinn með því að leggja Jóhann Ragnarsson að velli í spennandi skák. Fullt hús og glæsilegur sigur Róberts!

Lokastaðan, efstu menn:

Þrír efstu: Vignir (2. sæti), Róbert (1. sæti) og Jóhann (3 sæti)