Pistill Sigurlaugar um heimsókn KarpovsAnatoly Karpov nýr félagsmaður Taflfélags Reykjavíkur og heiðursgestur félagsins dagana 6.-9. október 2011

 

Taflfélag Reykjavíkur átti 111 ára afmæli 6. október sl. Mikið var um dýrðir, því fyrrum heimsmeistari í skák Anatoly Karpov var heiðursgestur í afmælishófinu sem jafnframt var móttaka til heiðurs honum, en hann lenti fyrr um daginn á Keflavíkurflugvelli.

 

Með Karpov í för var Vasily Papin 23 ára stórmeistari frá Rússlandi. Koma Karpovs í T.R. á fimmtudaginn var sannkölluð söguleg stund og vera hans hér í Reykjavík síðustu daga er án efa einn af merkustu viðburðum íslensks skáklífs til lengri tíma litið.

 

 

Dagskrá Karpovs var þétt skipuð og hugmyndin var að hann skyldi koma víða við. Í stuttu máli sagt varð heimsókn hans mjög gleðileg og heppnaðist í alla staði vel. Karpov var mjög skemmtilegur í viðmóti, áhugasamur, kíminn og með góða nærveru. Hann gaf sér góðan tíma í hvern einasta dagskrárlið og nærstaddir gátu notið frásagnar hans, taflmennsku og skákskýringa við hin ýmsu tækifæri.

 

Karpov í Salaskóla

Dagskráin hjá Karpov hófst föstudagsmorguninn 7. október í Salaskóla í Kópavogi. Taflfélag Reykjavíkur bauð Hafsteini Karlssyni skólastjóra að fá fyrrum heimsmeistarann í heimsókn og tók hann mjög vel í það. Okkur þótti vel við hæfi að Karpov hitti fulltrúa frá þeim tveimur grunnskólum landsins sem kveðið hefur mest að í skólaskák hin síðustu ár. Nýbökuðum Norðurlandameisturum Rimaskóla ásamt skólastjóra þeirra Helga Árnasyni var því einnig boðið að taka þátt í dagskránni með Karpov í Salaskóla. Karpov tefldi eina skák við nemanda úr hvoru skákliði fyrir sig. Fyrstur til að tefla við Karpov var Hilmir Freyr Heimisson, nemandi í skákliði Salaskóla. Því næst var það Hrund Hauksdóttir úr skákliði Rimaskóla sem tefldi við fyrrum heimsmeistarann.

 

Bæði tvö tefldu góðar skákir og Karpov fór nokkrum orðum um skákirnar í lokin. Öllum krökkunum úr skákliðunum tveimur gafst síðan kostur á að spyrja Karpov spurninga eins og á eins konar blaðamannafundi. Nokkrir krakkar nýttu sér það tækifæri og Karpov svaraði þeim með bros og vör og hafði gaman af. Hann spurði síðan sjálfur nokkurra spurninga, þannig að úr þessu varð hið besta samtal!

 

Í lokin voru svo teknar hópmyndir með hvoru liði fyrir sig ásamt skólastjórunum og Karpov. Þessi heimsókn vakti mikla athygli í Salaskóla og mikla lukku meðal skákkrakkanna úr Rimaskóla og Salaskóla.

 

Karpov í Laugardalshöll

Karpov hafði mikinn áhuga á að sjá Laugardalshöll þar sem einvígi Spasskís og Fischers fór fram og skruppum við í heimsókn með meistarann þangað. Það kom honum á óvart hve höllin er stór og hafði hann á orði að það hlyti að hafa verið magnað að tefla þar fyrir fullu húsi. Hann kímdi þegar honum var tjáð að næstfjölmennasti skákviðburður íslandssögunnar á eftir einvíginu ´72 hefði einnig farið fram í Höllinni, nefnilega bardaginn um íslandsmeistaratitilinn í skákhnefaleikum 2011!

Karpov í CCP

Eftir hádegi heimsótti Karpov CCP og skoðaði starfsemi fyrirtækisins. Þótti honum mikið til flaggskips fyrirtækisins koma, leiksins EVE online, og sá margt líkt með leiknum og skákinni. Báðir leikirnir byggjast á strategískri hugsun og hernaðarkænsku. Í lok heimsóknar hans í fyrirtækið tefldi hann við ríkjandi skákhnefaleikameistara Íslands, Björn Jónsson og hafði sigur eftir mikinn barning, en í þetta sinn fór sá barningur fram á klukkunni!

 

 

 Karpov og Friðrik Ólafsson í T.R.

Kl. 16.30 settust svo Karpov og Friðrik Ólafsson stórmeistari að tafli í sýningarskák í T.R. Umhugsunartíminn var 15 mín. á mann. Þeir tefldu rúmlega 20 leiki áður en þeir sættust á jafntefli. Hópur fólks var á staðnum og fylgdist síðan með skákskýringum meistaranna á gamla viðarskákskýringarborðinu, sem hafði verið smíðað fyrir einvígi Friðriks og Bent Larsens 1956.

 

 

 

Kom í ljós að mikil undiralda hafði verið í skákinni og staðan mjög flókin. Enda tóku þeir sér dágóðan tíma í skákskýringarnar og sýndu áhorfendum inn í hugarheim sinn, hvaða áætlanir höfðu verið í gangi og hvaða afbrigði höfðu verið í boði. Þetta var einstakur viðburður fyrir skákáhugamenn!

 

Setning Íslandsmóts skákfélaga

Síðasti dagskrárliður Karpovs þennan dag, var setning Íslandsmóts skákfélaga í Rimaskóla um kl. 20. Það var ljóst frá upphafi að Karpov myndi ekki setjast að tafli fyrir T.R. á Íslandsmóti skákfélaga í þetta skipti, en við gáfum það náttúrulega ekkert upp frekar en önnur lið sem héldu sinni liðsskipan fyrir sig! Karpov tók því þátt í setningunni með því að halda ávarp, afhenda verðlaun fyrir Landsmótið í skólaskák og leika fyrsta leiknum á öllum (fjórum) fyrstu borðunum í 1. deild. Þetta gerði hann allt saman með bros á vör og augljóst var að þeim 400 skákmönnum sem saman komnir voru í Rimaskóla þetta kvöld þótti mikið til koma að sjá fyrrverandi heimsmeistarann með eigin augum.

 

Ferð að leiði Fischers í Laugdælakirkjugarði

Laugardagurinn 8. október var tekinn snemma. Í slagviðri og úrhellisrigningu var haldið af stað yfir heiðina að Laugdælakirkju við Selfoss. Þegar í kirkjugarðinn var komið, birti til með sólargeislum og regnboga. Karpov lagði blóm á leiði Fischers og svo var minningarstund inni í kirkjunni.

 

Karpov í heimsókn hjá UNICEF

Eftir ferðina austur var haldið tilbaka til Reykjavíkur þar sem heimsókn hjá UNICEF á Íslandi var næst á dagskrá. Karpov er sérlegur sendiherra samtakana í mið og austur Evrópu. Gaf hann sér góðan tíma til að kynna sér starfsemi UNICEF á Íslandi og fannst mikið koma til þess merka starfs sem unnið er af samtökunum hér á landi.

 

 

Karpov á skákæfingu barna og unglinga í T.R.

Laugardagsæfingin hjá T.R. krökkunum hófst kl. 14. Sum hver komu þangað rakleiðis frá 2. umferð á Íslandsmóti skákfélaga í Rimaskóla. Torfi skákþjálfari sýndi krökkunum skák með Karpov, en skákir Karpovs hafa einmitt verið til umræðu á skákæfingum síðastliðnar vikur. Rétt fyrir kl. þrjú var svo boðið upp á hressingu, Svala, snúða og kex. Rúmlega 40 krakkar voru á æfingunni og nokkuð af foreldrum og mikil eftirvænting í loftinu.

 

Kl. 15.20 kom svo fyrrverandi heimsmeistarinn inn í salinn og krakkarnir tóku vel á móti honum með dynjandi lófaklappi! Þau skoruðu síðan á meistarann í skák á sýningarborðinu. Karpov var með hvítt en krakkarnir með svart. Karpov lék og krakkarnir réttu upp hönd ef þau vildu koma með leik. Torfi benti síðan á einhverja upprétta höndina og leiknum var leikið. Þegar komið var út í peðsendatafl og krakkarnir peði undir gáfu þau skákina, enda vissu þau að Karpov er enginn aukvisi í endatöflum!

 

 

Því næst fengu allir krakkarnir og þeir foreldrar sem vildu mynd til minningar um heimsókn Karpovs í T.R. Karpov áritaði svo hverja einustu mynd og hafði mikið gaman af áhuga krakkanna!

 

Karpov í heimsókn á Bessastöðum

Strax eftir Laugardagsæfinguna var brunað á Bessastaði í heimsókn til forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Það má því með sanni segja að Karpov hafi farið vítt og breitt þennan daginn!

 

Heimsóknin á Bessastöðum varð einnig síðasti dagskrárliðurinn, því Karpov þurfti síðan með stuttum fyrirvara að hætta við fjölteflið í Ráðhúsinu sem áætlað var daginn eftir. Ástæðan var sú að forseti Rússlands hafði boðað hann til sín til að veita honum viðurkenningu í tilefni af sextugsafmæli hans fyrr á árinu. Karpov fór því af landi brott á sunnudagsmorgninum 9. október en landi hans Vasily Papin tefldi fjölteflið í hans stað í Ráðhúsinu eftir síðustu umferð Íslandsmóts skákfélaga.

 

Einstakur viðburður

Það má með sanni segja að koma Karpovs til Íslands um síðustu helgi hafi verið einstakur viðburður í íslensku skáklífi. Við í Taflfélagi Reykjavíkur erum mjög ánægð og stolt yfir því að hann hafi gengið í félagið og strax þar á eftir komið í heimsókn og heiðrað félagið með nærveru sinni á 111 ára afmælinu! Þetta er draumi líkast!

 

Taflfélag Reykjavíkur hefur breiða starfsemi og áherslurnar eru margvíslegar eins og umfangsmikið barna-og unglingastarf, umfangsmikið skákmótahald og metnaður í að T.R. sé með keppnislið í fremstu röð, eins og það hefur haft í áratugi.

 

Síðast en ekki síst er Taflfélag Reykjavíkur eitt af elstu starfandi menningarfélögum landsins. Koma Karpovs er því í hæsta máta menningarlegur viðburður fyrir utan það að vera einn merkasti viðburður í skáklífi landsins frá upphafi. Vera hans hér í Reykjavík vakti mikla athygli einnig fyrir utan skákheiminn. Þannig sýndu fjölmiðlar, bæði sjónvarp og dagblöð, veru hans hér mikinn áhuga og greint var frá dagskrá hans og tekin greinagóð viðtöl við hann.

 

 

Við erum þess fullviss að koma Karpovs muni lengi lifa í minningu þeirra sem hittu hann dagana 6.-9. október. Við erum þess einnig fullviss að heimsókn hans í T.R. muni hafa áhrif um ókomin ár.

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur þakkar fyrirtækjunum CCP og MP banka fyrir frábært samstarf og fyrir að leggja sitt á vogarskálarnar og gera okkur þannig kleift að láta hugmyndina, um að fá fyrrum heimsmeistara í skák Anatoly Karpov til Íslands, verða að veruleika.

 

 

Pistlahöfundur: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, formaður T.R.

 

Myndir frá heimsókninni:

Sýningarskák Karpovs og Friðriks

Karpov og T.R. krakkarnir

Karpov í Salaskóla

Fjöltefli Papins

 

 

Umfjöllun á Ruv