Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur heldur áfram á morgun, sunnudaginn 2.apríl. Taflið hefst klukkan 13 og er áætlað að því ljúki um klukkan 15:45.
Keppt verður í tveimur flokkum, 1-3.bekk (og yngri) og 4-10.bekk. Sjö umferðir verða tefldar með 5 mínútna umhugsunartíma á mann og bætast 3 sekúndur við tímann eftir hvern leik (5+3). Hraðskákstig verða reiknuð. Enginn ólöglegur leikur er leyfður og því tapast skák við fyrsta ólöglega leik.
Verðlaunapeningur og páskaegg verða í verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki. Þá verður jafnframt páskaegg í verðlaun fyrir efstu stúlkuna í hvorum flokki. Að móti loknu verður einn þátttakandi dregin út í happdrætti og hlýtur sá heppni að launum stórt páskaegg. Þátttakendur geta aðeins fengið eitt páskaegg hver í hverju móti Páskaeggjasyrpunnar, þó er happdrættisvinningurinn undanskilin þeirri reglu. Að loknu þriðja og síðasta mótinu verða veitt stór páskaegg í verðlaun fyrir samanlagðan árangur.
Allir sem taka þátt í minnst tveimur af þremur mótum Páskaeggjasyrpunnar fá páskaegg í verðlaun fyrir þátttökuna og verða þau afhent í lok þriðja mótsins.
Skráning fer fram í gegnum skráningarformið hér að neðan, en einnig má nálgast það í gula kassanum á skak.is.
Taflfélag Reykjavíkur og Nói Síríus hlakka til að sjá ykkur á móti númer 2 í PÁSKAEGGJASYRPUNNI 2017!