Mikil spenna á Haustmótinu – Einar og Bragi efstir



HTR_2015_R1-12

Þegar tvær umferðir lifa af Haustmóti TR er spennan í algleymingi í öllum fjórum flokkunum.  Í A-flokki deila með sér efsta sætinu alþjóðlegu meistararnir Einar Hjalti Jensson og Bragi Þorfinnsson en báðir hafa þeir 5,5 vinning.  Í sjöundu umferð sigraði Bragi Benedikt Jónasson en Einar Hjalti gerði jafntefli við stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu.  Athygli vekur að næstur með 4 vinninga kemur Oliver Aron Jóhannesson en hann á inni tvær frestaðar viðureignir.

HTR_2015_R4-38

Í B-flokki var áfram haldið upp á ræsingu friðarsúlunnar norður í Viðey því aðra umferðina í röð lauk fjórum af fimm orrustum með jafntefli.  Efstu keppendurnir, Guðlaug Þorsteinsdóttir og Agnar Tómas Möller, voru meðal þeirra sem mökkuðu friðarpípurnar og sömdu um skiptan hlut í innbyrðis viðureign.  Guðlaug var þó ekki lengur á friðsamlegu nótunum er hún atti kappi við kollega sinn, Ólaf Gísla Jónsson, í frestaðri viðureign þar sem hún hafði betur og plantaði sér fyrir vikið á toppinn með 6 vinninga.  Agnar er næstur með 5 vinninga en hinn ungi og reffilegi Vignir Vatnar Stefánsson andar ofan í hálsmálið á honum með 4,5 vinning.

HTR_2015_R4-30

Í C-flokki fer hinn sposki glókollur Gauti Páll Jónsson hamförum en að eigin sögn skilur hann ekki hvers vegna hann er ekki í B-flokknum.  Gauti er á góðri leið með að sýna svo ekki verður um villst að þar á hann heima því að loknum sjö umferðum er hann einfaldlega með 7 vinninga, en fleiri vinninga er ekki hægt að hafa eftir 7 umferðir.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir kemur næst með 5,5 vinning og þá Heimir Páll Ragnarsson með 4 vinninga.

HTR_2015_R4-12

Í opna flokknum þarf líkast til að biðja keppendur um að minnka spennustigið lítið eitt áður heldur en áhugasamir fara að hrynja niður vegna hjartaáfalla.  Efstur með 5,5 vinning er Arnar Milutin Heiðarsson sem hefur verið á miklu flugi undanfarið en þrír, ekki síður öflugir kappar, koma næstir með 5 vinninga; Alexander Oliver Mai, Guðmundur Agnar Bragason og Jón Þór Lemery.

Áttunda umferð fer fram á miðvikudagskvöld og verður þá af nægu að taka en venju samkvæmt hefjast leikar á slaginu 19.30.  Í A-flokki mætir Einar Hjalti Oliver Aroni í mjög svo athyglisverðri viðureign og þá mun Bragi ekki eiga náðugan dag gegn Lenku.  Í B-flokki mætir Guðlaug Herði Aroni Haukssyni, Gauti Páll mætir líka Herði í C-flokki en sá er Jónasson og í opna flokknum verður toppslagur á milli Arnars Milutins og Jóns Þórs þar sem enginn afsláttur verður gefinn.

Skákhöllin í Faxafeninu er opin öllum áhugasömum.  Áhorfendur velkomnir – heitt á könnunni og kræsingar með.