Laugardagsæfingarnar hefjast nk laugardagÁratuga löng hefð er fyrir laugardagsæfingum Taflfélags Reykjavíkur.  Þær hefjast aftur eftir sumarfrí laugardaginn 11. september kl. 14.  Að venju fara æfingarnar fram í húsnæði félagsins að Faxafeni 12.

Í fyrra mætti oftar en ekki vel á fjórða tug barna á æfingarnar en alls voru í kringum 100 börn sem sóttu þær.  Á æfingunum eru sett upp skákmót, skákkennsla fer fram og skákþrautir leystar ásamt ýmsum öðrum uppákomum.  Þá er boðið upp á léttar veitingar um miðbik æfinganna en sá partur er orðinn órjúfanlegur hluti af æfingunum hjá börnunum.

Haldið er utan um mætingu og árangur barnanna og hverri æfingu er gerð góð skil í ítarlegum pistlum.

Aðgangur er ókeypis og eru æfingarnar ætlaðar börnum fæddum 1997 og síðar.

Umsjón með laugardagsæfingunum skipta þær með sér, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, formaður T.R. og Elín Guðjónsdóttir sem situr í stjórn félagsins.

Skákkennarar eru Torfi Leósson og Ólafur Kjartansson (Daði Ómarsson tekur við af Ólafi eftir áramót), félagsmenn í T.R.  Allir eru þeir sterkir skákmenn með yfir 2000 elo-stig.

  • Pistlar laugardagsæfinganna
  • Myndir frá laugardagsæfingum